Fótbolti

Ekkert bikarævintýri í ár hjá Ísaki

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson og félagar í Düsseldorf eru úr leik í bikarnum.
Ísak Bergmann Jóhannesson og félagar í Düsseldorf eru úr leik í bikarnum. Getty

Bikarævintýri Fortuna Düsseldorf var ansi mikið styttra í ár en á síðustu leiktíð, þegar liðið fór í undanúrslit þýska bikarsins í fótbolta.

Í dag tapaði liðið fyrir 3. deildarliði Dynamo Dresden, 2-0. Ísak Bergmann Jóhannesson spilaði allan leikinn fyrir Düsseldorf.

Sverrir Ingi Ingason var á varamannabekknum hjá Panathinaikos sem tapaði 1-0 á heimavelli gegn Asteras Tripolis, í grísku úrvalsdeildinni.

Flottur sigur hjá Patrik og Frey

Í Belgíu vann Kortrijk flottan sigur á Standard Liege, 1-0, þar sem Patrik Gunnarsson stóð í marki Kortrijk. Gestirnir frá Liege misstu mann af velli með rautt spjald á 35. mínútu og Kortrijk, undir stjórn Freys Alexanderssonar, nýtti sér liðsmuninn um miðjan seinni hálfleik þegar Thierry Ambrose skoraði.

Kortrijk er því með tvo sigra eftir fyrstu fjórar umferðirnar, en tvö töp, stigi meira en Standard Liege.

Andri Lucas Guðjohnsen var hins vegar á varamannabekknum hjá Gent sem vann 4-1 sigur á Westerlo. Þetta var fyrsti sigur Gent en Westerlo hafði unnið fyrstu þrjá leiki sína.

Í norska boltanum kom Viðar Ari Jónsson inn á á 73. mínútu í 1-0 sigri HamKam á Odd, en Brynjar Ingi Bjarnason var ekki með.

Anton Logi Lúðvíksson kom inn á sem varamaður á 54. mínútu hjá Haugesund í 2-2 jafntefli á útivelli gegn Sarpsborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×