Fótbolti

Henry hættir eftir silfrið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thierry Henry starfaði sem þjálfari franska U-21 árs landsliðsins í ár.
Thierry Henry starfaði sem þjálfari franska U-21 árs landsliðsins í ár. getty/Carl Recine

Thierry Henry er hættur sem þjálfari franska U-21 árs landsliðsins. Undir hans stjórn unnu Frakkar til silfurverðlauna í fótboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í París.

Í yfirlýsingu frá franska knattspyrnusambandinu segir að Henry hætti sem þjálfari U-21 árs landsliðsins af persónulegum ástæðum.

„Það er fátt sem gerir mig stoltari en að vinna silfur á Ólympíuleikum fyrir þjóð mína,“ er haft eftir Henry í yfirlýsingunni.

„Ég er ótrúlega þakklátur knattspyrnusambandinu, leikmönnunum, starfsliðinu og stuðningsfólkinu sem gerðu þessa upplifun einstaka.“

Henry stýrði franska U-21 árs liðinu og Ólympíuliðinu í samtals ár; í alls sautján leikjum. Tólf unnust, tveir enduðu með jafntefli og þrír töpuðust.

Áður var Henry aðstoðarþjálfari belgíska landsliðsins og aðalþjálfari Monaco og Montreal Impact.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×