Skoðun

Loftslagsaðgerðir í sátt við líf­fræði­lega fjöl­breytni

Rannveig Magnúsdóttir og Guðrún Schmidt skrifa

Mikil umræða er búin að vera í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum um skógrækt til kolefnisbindingar í mólendi í Saltvík við Húsavík. Gróið berjaland var plægt upp þrátt fyrir viðvörunarorð sérfræðinga hjá Náttúrustofu Norðvesturlands. Prófessor í landnýtingu segir að þegar horft er til langs tíma sé lággróður, líkt og sá sem plægður var burt í Saltvík, betri til bindingar á kolefni en skógur. Slík landsvæði ættu að njóta verndar samkvæmt Bernarsamningnum. Formaður Fuglaverndar telur þar að auki að ýmis lög hafi verið brotin því m.a. var landið plægt upp á varptíma. Landvernd tekur undir þessa gagnrýni og kallar eftir víðtækri endurskoðun á skógrækt í tengslum við kolefnisbindingu.

Íslensk náttúra og alþjóðlegir samningar

Hlutverk Landverndar er m.a. að standa vörð um íslenska náttúru og samtökin leggja áherslu á að staðið sé við alþjóðlega samninga. Það kemur skýrt fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að loftslagsaðgerðir verða að taka tillit til náttúruverndar og líffræðilegrar fjölbreytni (lífbreytileika). Með Heimsmarkmiðunum, Parísarsamkomulaginu og nú síðast Kunming-Montréal stefnunni um líffræðilega fjölbreytni hafa þjóðir heims skilgreint hvað þarf að gera til að leiða heimsbyggðina á braut sjálfbærrar þróunar, koma í veg fyrir hrun vistkerfa og samfélaga og stuðla að endurreisn náttúru. Vistkerfisnálgun (e. Ecosystem approach) er sú aðferðafræði sem Samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni mælir með í skipulagi, en þar er stuðlað að samræmi milli verndunar vistkerfa og sjálfbærrar nýtingar með jafnrétti að leiðarljósi. Endurheimt vistkerfa er sú alþjóðlega viðurkennda aðferð sem vísindasamfélagið hefur bent á að sé árangursríkust í bæði kolefnisbindingu og vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Síðast en ekki síst, þá er áratugurinn 2021-2030 helgaður endurheimt vistkerfa hjá Sameinuðu þjóðunum.

Ákall um endurskoðun, samvinnu og skipulag

Til að ná sátt um landnýtingu og aðgerðir til kolefnisbindingar þarf að fara í víðtæka endurskoðun á málefninu. Prófessor í vistfræði hefur áður skorað á yfirvöld og sveitarfélög að endurskoða aðgerðaráætlanir sínar og skipulag um landnýtingu. Landvernd tekur undir þessa áskorun og hefur áhuga á að taka virkan þátt í slíkri vinnu. Aðferðafræði vistkerfisnálgunar myndi henta afar vel í þeirri vegferð.

Höfundar eru sérfræðingar hjá Landvernd.




Skoðun

Sjá meira


×