Körfubolti

Amazon kóngurinn sagður vilja kaupa NBA meistarana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jeff Bezos, eigandi Amazon og Jason Tatum, lykilmaður Boston Celtics með bikarinn.
Jeff Bezos, eigandi Amazon og Jason Tatum, lykilmaður Boston Celtics með bikarinn. Getty/Elsa

Bandarískir fjölmiðlar fjalla nú um þann þráðláta orðróm að Jeff Bezos, eigandi Amazon, ætli sér að kaupa NBA körfuboltaliðið Boston Celtics.

Eigendur Celtics tilkynntu það óvænt fljótlega eftir að liðið vann sinn fyrsta meistaratitil í sextán ár að félagið væri nú til sölu.

Þekkir vel til hjá Celtics

Íþróttafréttamaðurinn Bill Simmons þekkir vel til hjá Boston Celtics enda mikill stuðningsmaður félagsins. Simmons kom fram í gær og sagðist sannfærður um að það sé mikið til í þessum fréttum.

„Á síðustu dögum þá hefur verið réttmætur orðrómur um að Jeff Bezos ætli sér að kaupa Celtics. Ég held að þetta sé rétt og ég held að hann verði einn af þeim sem bjóði í félagið,“ sagði Simmons.

Simmons tengir söluna einnig við hugsanlega stækkun NBA deildarinnar um tvö félög sem verða væntanlega í Seattle og Las Vegas.

827 milljarða verðmiði

Hann segir að það sé krafa um að kaupverðið á Celtics verði að lágmarki sex milljarðar dollara eða 827 milljarðar íslenskra króna. Bezos ætti að hafa efni á slíku enda næstríkasti maður heims. Hann bæði stofnaði og þróaði Amazon og gerði það að stærsta netsölufyrirtæki heims.

„NBA deildin vill fá sex milljarða dala fyrir félagið þótt að það eigi ekki sína eigin íþróttahöll. Þetta er klikkuð upphæð en þeir vilja fá þessa stóru upphæð af því að þeir vilja líka bæta liðum við í Seattle og Vegas og jafnvel Mexico City. Ef þeir fá sex milljarða fyrir tvö viðbótarlið þá fá allir eigendur NBA liðanna ávísun upp á fjögur hundruð milljónir dala,“ sagði Simmons.

Fjögur hundruð milljónir Bandaríkjadala eru 55 milljarðar króna.

Það má sjá Simmons tjá sig hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×