Gögnum frá framboði Trump, meðal annars um J.D. Vance varaforsetaefni Trump, var lekið til nokkurra bandaríska fjölmiðla á dögunum. Framboð Trump sagðist hafa verið fórnarlamb tölvuárásar sem það sakaði írönsk stjórnvöld um að standa að.
Nú hefur alríkislögreglan FBI og fleiri leyniþjónustustofnanir staðfest að þær telji Írani ábyrga fyrir árásinni. Markmið hennar hafi verið að hluti af tilraunum stjórnvöld í Teheran til þess að hafa áhrif á bandarísk stjórnmál og mögulega úrslit forseta- og þingkosninganna í haust.
Sendinefnd Írana hjá Sameinuðu þjóðunum vísaði ásökununum á bug og sagði þær ekki studdar rökum. Írönsk stjórnvöld hefðu hvorki ástæðu né áhuga á að hafa áhrif á kosningarnar. Skoraði hún á bandarísk stjórnvöld að leggja fram sannanir máli sínu til stuðnings.
Gera sér ekki mat úr lekanum úr framboði Trump
Auk þess að brjótast inn í tölvur framboðs Trump telur bandaríska leyniþjónustan að Íranir hafi sent að minnsta kosti þremur starfsmönnum framboðs Kamölu Harris svikapósta. Ekkert bendir til þess að þeim hafi orðið ágegnt með þær netveiðar (e. phishing), að sögn AP-fréttastofunnar.
Viðbrögð bandarískra fjölmiðla við gagnalekanum innan úr framboði Trump nú voru töluvert frábrugðin því þegar rússneskir tölvuþrjótar stálu tölvupóstum kosningastjóra Hillary Clinton og láku í gegnum Wikileaks árið 2016. Þeir fjölmiðlar sem fengu gögnin nú kusu að skrifa ekki fréttir upp úr gögnunum heldur einblína á uppruna lekans. Árið 2016 skrifuðu sömu miðlar fjölda frétta upp úr póstum kosningastjórans, allt niður í tillögur hans að bestu risotto-uppskriftinni.