Viðskipti innlent

Nær mark­miðinu aftur og var með 108,6 milljónir á mánuði

Eiður Þór Árnason skrifar
Haraldur Ingi Þorleifsson hefur einnig vakið athygli fyrir verkefnin Römpum upp Reykjavík og Ísland sem hafa það að markmiði að fjölga hjólastólarömpum um allt land.
Haraldur Ingi Þorleifsson hefur einnig vakið athygli fyrir verkefnin Römpum upp Reykjavík og Ísland sem hafa það að markmiði að fjölga hjólastólarömpum um allt land. Vísir/Vilhelm

Haraldur Ingi Þorleifsson, stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno og fyrrverandi starfsmaður Twitter, var með 108,6 milljónir króna á mánuði árið 2023 miðað við útsvarsskyldar tekjur. Hann er tekjuhæsti Íslendingurinn í Tekjublaði Frjálsrar verslunar.

Haraldur jók tekjur sínar umtalsvert milli ára en þær voru um 46 milljónir króna að jafnaði á mánuði árið 2022. Þetta er annað árið í röð sem Haraldur er tekjuhæsti einstaklingurinn í Tekjublaði Frjálsrar verslunar en árið 2021 var hann annar á lista.

Rætt var við Harald Þorlefsson í Íslandi í dag í febrúar 2022.

Haraldur bjó lengi í Bandaríkjunum og seldi fyrirtæki sitt Ueno til Twitter árið 2021. Hann hefur greint frá því að hann hafi ákveðið að greiða alla skatta af sölunni á Íslandi og óskað sérstaklega eftir að fá kaupverðið greitt í formi launagreiðslna til að hámarka þá skatta sem hann greiði af söluandvirðinu. Venjubundin sala hefði leitt til þess að söluhagnaðurinn yrði skattlagður með 22% fjármagnstekjuskatti. 

Árið 2022 sagðist Haraldur sækjast eftir því að verða skattakóngur Íslands til að greiða aftur til samfélagsins sem veitti fötluðum dreng úr verkamannafjölskyldu endurgjaldslausa menntun og heilbrigðisþjónustu.

Efstu á lista Tekjublaðs Frjálsrar verslunar yfir ýmsa úr atvinnulífinu

Haraldur Ingi Þorleifsson, stofnandi Ueno – 108.628 þúsund

Óskar Axelsson, frkvstj. Marport ehf. – 23.699 þúsund

Hreggviður Jónsson, fjárfestir og aðaleigandi Stormtrés – 13.098 þúsund

Gunnlaugur S Gunnlaugsson, stjform. Lýsis – 10.440 þúsund

Marínó Örn Tryggvason, fyrrvarandi forstjóri Kviku banka. Aðsend

Marínó Örn Tryggvason, stjform. Gallon og fyrrv. forstjóri Kviku – 7.785 þúsund

Vilhjálmur Egilsson, stjrm. VÍS og fv. rektor Bifröst – 6.673 þúsund

Björgólfur Jóhannsson, fv. forstj. Icelandair og Samherja – 6.622 þúsund

Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair og Samherja.Vísir/Vilhelm

Sigurður Valtýsson, einn eigenda og forsvarsmaður Frigusar – 5.344 þúsund

Karólína D Þorsteinsdóttir, viðskiptafræðingur – 5.184 þúsund

Hannes Hilmarsson, stjform. Air Atlanta – 4.877 þúsund

Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í dag en rétt er að árétta að um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2023 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2022 sem var greiddur árið 2023.

Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá en í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, til dæmis af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Þá ber að hafa í huga að inn í tekjunum geta líka verið einskiptisgreiðslur vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.

Verktakagreiðslur flokkast ekki sem útsvarsskyldar tekjur og eru því ekki teknar fyrir í álagningaskrá Ríkisskattstjóra sem Tekjublaðið styðst við.


Tengdar fréttir

Ólafur Ragnar skákar Vig­dísi og Guðna

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, er efstur á tekjulista forseta, alþingismanna og ráðherra með 4,3 milljónir króna á mánuði. Guðni Th. Jóhannesson, einnig fyrrverandi forseti, er með 3,4 milljónir á mánuði og Vigdís Finnbogadóttir með 3 milljónir á mánuði. 

Helgi Björns ber sig ekki eins vel milli ára

Óskar Magnússon rithöfundur og stjórnarformaður Eimskips er efstur á lista yfir tekjuhæstu listamenn landsins, annað árið í röð. Á listanum er að finna mörg kunnugleg nöfn, meðal annars Siggu Beinteinsdóttur söngkonu, Steinda jr. grínista og Örn Árnason leikara. Helgi Björnsson tónlistarmaður fer úr sæti næsttekjuhæsta listamannsins og niður í 26. sæti, miðað við greitt útsvar.

Topparnir hjá hinu opin­bera

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, var tekjuhæsti forstjóri ríkisstofnana á síðasta ári með 4,2 milljónir á mánuði. Næst á eftir kom Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, með 3,7 milljónir. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×