Að sögn Veðurstofunnar hélt rennsli í Skaftá við Sveinstind áfram að vaxa fram eftir gærkvöldi og hefur verið í hægum vexti það sem af er degi. Mælist það nú tæplega 180 rúmmetrar á sekúndu. Það er sagt sambærilegt við mikið sumarrennsli en í lægri kantinum miðað við hámarksrennsli síðustu Skaftárhlaupa.
Fram kemur á vef Veðurstofunnar að rennsli í Eldvatni sem er nærri þjóðvegi eitt sé einnig farið að vaxa jafnt og þétt en hlaupið enn ekki haft áhrif á veginn.
Búið er að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna Skaftárhlaups. Ferðafólki er eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals og sömuleiðis jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.

Mögulegt að hlaupið vari í allt að tvær vikur
Um þrjú ár eru frá síðasta hlaupi úr Vestari-Skaftárkatli sem er sagður óvenju langur tími milli hlaupa. Því er talið líklegt að þetta hlaup eigi upptök sín þar en það hefur ekki fengist staðfest.
Að sögn Veðurstofunnar hafa sum fyrri hlaup úr Vestari-Skaftárkatlinum ekki náð miklu hámarksrennsli en varið lengi eða í eina til tvær vikur. Mögulegt sé að slíkt hlaup sé í gangi núna en það sagt enn of snemmt að fullyrða til um það.
Veðurstofan segir mikilvægt að íbúar og aðrir sem eigi leið um flóðasvæðið séu meðvitaðir um mögulega hættu á því að Skaftá flæði yfir vegi sem liggi nærri árbökkum, brennisteinsvetni berist með hlaupvatninu sem geti skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi og sprungur geti myndast mjög hratt í kringum ketilinn.
Því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum, sem og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls þar sem hlaupvatn gæti brotið sér leið upp á yfirborðið.