Innlent

Fær Amsterdam-reiðuféð ekki til baka frá lög­reglu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Mennirnir voru handteknir í Leifsstöð.
Mennirnir voru handteknir í Leifsstöð. vísir/vilhelm

Landsréttur hefur hafnað kröfu manns um afhendingu reiðufjár upp á sex þúsund evrur, sem lögregla lagði hald á í Leifsstöð. Peninginn hafði maðurinn meðferðis á leið til Amsterdam með félögunum. 

Í úrskurði Landsréttar, þar sem niðurstaða héraðsdóms er staðfest, kemur fram að maðurinn sé grunaður um peningaþvætti. Peningnum hafi líklega verið aflað með brotastarfsemi. 

Með honum í för voru tveir félagar sem sömuleiðis höfðu reiðufé meðferðis, annar sjö þúsund og hinn átta þúsund evrur, í kringum eina milljón króna. Allir á leið til Amsterdam.

Mennirnir voru kallaðir til tollskoðunar og í kjölfarið var reiðuféð haldlagt. Þeir heimiluðu lögreglu rannsókn bankagagna sinna. 

Maðurinn krafðist þess nú, um tíu mánuðum eftir haldlagningu, að fá peninginn afhentan á ný. Vísaði hann til þess að langt hefði verið liðið frá haldlagningu og ekkert sem benti til þess að peningnum hefði verið aflað á ólögmætan hátt. Hann hafi auk þess enn ekki verið kallaður til skýrslutöku. 

Lögregla sagði ljóst að peningnum kunni að hafa verið aflað á ólögmætan hátt. Það væri í rannsókn sem gengi vel. Skýringar mannsins hafi verið margar og misvísandi og framburður ótrúverðugur.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að þó rannsókn hafi tekið talsverðan tíma væri engu að síður ekki óeðlilegur gangur á henni og enn uppfyllt skilyrði um haldlagningu. Landsréttur staðfesti þessa niðurstöðu héraðsdóms. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×