Innlent

Leigu­verð hefur hækkað um rúm 15 prósent milli ára

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Leita þarf til ársins 2017 til að finna viðlíka hækkanir.
Leita þarf til ársins 2017 til að finna viðlíka hækkanir. Vísir/Arnar

Vísitala leiguverðs hefur hækkað um rúm fimmtán prósent milli ára og tvö prósent milli mánaða. Hún var 118,4 stig í júlí.

Á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að leita þurfi aftur til ársins 2017 til að finna viðlíka hækkanir leiguverðs á markaði. Á sama tíma og vísitala leiguverðs hefur hækkað um 15,1 prósent mældist verðbólga 6,3 prósent og vísitala íbúðaverðs hækkaði um 11 prósent.

Vísitalan byggir á nýjum leigusamningum í Leiguskrá HMS um hefðbundnar íbúðir sem eru í eigu einstaklinga og fyrirtækja sem eru rekin í hagnaðarskyni. Stuðst er við leigusamninga síðastliðna tvo mánuði og því er nýjasta gildi hennar byggt á samningum í júní og júlí. Vísitalan byggir því ekki á leigusamningum hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum eða sveitarfélögum.

Þróun leiguvísitölunnar frá maímánuði 2023 má sjá á mynd hér að neðan.

„Vísitalan hækkaði um 8,2 prósent á ársgrundvelli í júlí umfram verðbólgu, en raunverðshækkanirnar voru nær 7 prósentum í apríl, maí og júní. Á þeim 12 árum sem sameinuð leiguverðsvísitala nær yfir hefur raunverðshækkun á ársgrundvelli aðeins verið meiri á árinu 2017, en þá var hún á bilinu 10 til 12 prósent,“ segir í tilkynningu fá vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×