Fótbolti

Fyrsti sau­tján ára strákurinn með þrennu síðan Haaland náði því

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sverre Nypan er efnilegur fótboltamaður og líklegur til að komast fljótlega í sterkari deild.
Sverre Nypan er efnilegur fótboltamaður og líklegur til að komast fljótlega í sterkari deild. Getty/Mark Scates

Táningurinn Sverre Nypan var í aðalhlutverki í norsku úrvalsdeildinni í gær þegar Rosenborg vann öruggan sigur á Lilleström.

Þetta er frægur leikur því hann var flautaður af á sínum tíma vegna þess að stuðningsmenn hentu fiskibollum inn á völlinn til að mótmæla myndbandsdómgæslu.

Leikurinn fór fram í gær en fyrir luktum dyrum. Stuðningsmenn Rosenborg misstu því af því þegar hinn sautján ára gamli Nypan fór á kostum og skoraði þrennu.

Nypan er fyrsti sautján ára strákurinn til að skora þrennu í efstu deild í Noregi síðan sjálfur Erling Braut Haaland náði því fyrir Molde á móti Brann í júlímánuði árið 2018.

Nypan er meira að segja 99 dögum yngri en Haaland var á þeim tíma. Nypan er fæddur 19. desember 2006 og var því bara 17 ára og 246 daga gamall í gær.

Nypan hefur alls skorað fimm mörk og gefið fimm stoðsendingar með Rosenborg í norsku úrvalsdeildinni í sumar.

Hans besta staða er á miðri miðjunni en getur líka spilað fremst á miðjunni eða í framlínunni. Hann var á þriggja manna miðju í leiknum í gær. Mörkin hans komu í lok fyrri hálfleiks og svo á 72. og 78. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×