Handbolti

45 ára á næsta ári en spilar á­fram með Val: „Heppinn að vera með skrokk sem heldur“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Alexander verður 45 ára á næsta ári.
Alexander verður 45 ára á næsta ári. Vísir/sigurjón

Handboltamaðurinn Alexander Petersson hefur ákveðið að spila með Valsmönnum í Olís-deild karla í vetur. Hann verður 45 ára á næsta ári.

Alexander verður langelsti leikmaður efstu deildar á næsta tímabili. Hann lagði fyrsta skóna á hilluna árið 2022 sem atvinnumaður í Þýskalandi. Ári seinna, eða í fyrra, ákvað hann síðan að taka fram skóna á nýjan leik og lék hann með Valsmönnum síðasta vetur.

„Þetta bara gengur vel og mér líður vel og þetta er enn þá gaman. Mig langar bara að halda þessu áfram og sjá til hvað gerist,“ segir Alexander í Sportpakkanum á Stöð 2 í gærkvöldi. Hann segist alltaf hafa hugsað vel um líkamann allan sinn feril.

„Mataræði, agi og svefn skiptir miklu máli. En svo er ég heppinn að hafa skrokk sem heldur svona lengi.“

Valur náði þeim merka áfanga að verða Evrópubikarmeistarar í vor en náðu ekki að landa Íslandsmeistaratitlinum.

Sennilega hans síðasta tímabil

„Þetta var magnað tímabil hjá okkur. Við unnum bikarinn og Evrópubikar og það er alltaf erfitt að hætta á toppnum, manni langar alltaf í meira. Ég held samt að þetta verði mitt síðasta tímabil en maður veit samt aldrei.“

Hann gerir ráð fyrir því að hlutverk hans innan Valsliðsins breytist aðeins á næsta tímabili og mun hann líklega mestmegnis standa í vörninni.

„Ég er að spá í því að spila eiginlega ekkert í sókninni og meira að hjálpa strákunum að smíða saman vörn og líma þetta saman.“

Alexander hefur aldrei orðið Íslandsmeistari eftir gríðarlega farsælan feril. 

„Mig langar það mjög mikið en það verður erfitt með úrslitakeppni og allt inni í þessu. En allt er hægt og við erum að reyna setja saman gott lið. Það eru að koma inn margir nýir leikmenn og þetta verður ekki einfalt en allt er mögulegt.“

Hér að neðan má sjá viðtalið við Alexander.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×