Hraunflæðið náði síðar jafnvægi. Sýndu niðurstöður úr fyrsta vísindafluginu yfir gosið að hraunflæði væri um 1.200 til 1.500 rúmmetrar á sekúndu og gossprungan tæpir fjórir kílómetrar að lengd.
„Ég held að þetta sé bara svipaður hraði og við höfum verið að sjá í byrjunarfasa á þessum gosum. Þetta ætti svosem ekkert að koma okkur á óvart,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnarsviðs hjá ríkislögreglustjóra. Líkur eru taldar á því að hraun nái að Grindavíkurvegi en hraun rennur ekki í átt að Grindavík. Engar truflanir hafa verið á starfsemi orkuversins í Svartsengi.
Eftir klukkan eitt kom í ljós að ný sprunga hafði opnast fyrir norðan nyrsta endann á sprungunni þar sem gosið hófst og var sú nýja um það bil einn kílómetri að lengd. Enn sem komið er virtist vera lítil virkni á nýju sprungunni.
Skjálftavirkni hefur verið áframhaldandi í alla nótt og aflögun í gangi. Mældist skjálfti að stærð 4,1 norður af Stóra-Skógfelli um klukkan 22:37. Skjálftinn er sá stærsti sem hefur mælst frá því í desember. Varað er við mikilli gasmengun nærri gosinu.
Öll nýjustu tíðindi má sjá í vaktinni hér að neðan. Endurhlaðið síðunni ef vaktin birtist ekki strax.
Fréttin hefur verið uppfærð.