Upp­gjörið: Breiða­blik - Víkingur 4-0 | Blikar kaf­færðu Víkingi í seinni hálf­leik

Hjörvar Ólafsson skrifar
breiðablik kvk anton
vísir/Anton

Breiðablik lagði Víking að velli með fjórum mörkum gegn engu þegar liðin áttust við í lokaumferð Bestu deildar kvenna í fótbolta áður en deildinni verður skipt í tvo hluta á Kópavogsvelli í dag. 

Víkingur er eina liðið fyrir utan Val sem náð hefur í stig gegn Breiðabliki í deildinni í sumar en það var með 2-1 sigri í fyrri leik liðanna í Víkinni. Blikar áttu því harma að hefna eftir þennan leik. 

Eftir bragðdaufan fyrri hálfleik var staðan 1-0 fyrir Breiðablik en forysta heimakvenna var verðskulduð þar sem liðið var sterkari aðilinn heilt yfir í fyrri hálfleiknum.

Það var Kristín Dís Árnadóttir sem kom Breiðablik á bragðið en hún hamraði þá boltann í netið eftir fyrirgjöf frá Samöntu Rose Smith þegar tæplega tíu mínútur voru liðnar af leiknum.

Katrín Ásbjörnsdóttir fékk kjörið tækifæri til þess að tvöfalda forystu Breiðabliks eftir rúmlega hálftíma leik. Breiðablik fékk þá vítaspyrnu þegar Erna Guðrún Magnúsdóttir braut á Birtu Georgsdóttur. Katrínu brást hins vegar bogalistin en Sigurborg Katla Sveinbjörnsdóttir varði spyrnu Katrínar.

Breiðablik varð fyrir blóðtöku skömmu síðar þegar Birta Georgdóttir þurfti að yfirgefa völlinn vegna meiðsla. Vigdís Lilja Kristjánsdóttir leysti Birtu af hólmi í framlínu Blika.

Flóðgáttirnar opnuðust svo í síðari hálfleiknum þar sem Blikar léku við hvur sinn fingur.

Seinni hálfleikur var aðeins þriggja mínútna gamall þegar staðan var skyndilega orðin 3-0 Blikum í vil. Vigdís Lilja skoraði fyrst eftir stoðsendingu frá Andreu Rut Bjarnadóttur. Hlutverkin snérust svo við hjá þeim þegar Vigdís Lilja kláraði færið ansi vel eftir flotta fyrirgjöf frá Andreu Rut.

Katrín Ásbjörnsdóttir bætti svo fjórða markinu við þegar klukkutími var búinn en hún fylgdi þá eftir skoti Andreu Rutar og setti boltann í netið af stuttu færi.

Eltingaleikur Breiðabliks við topp deildarinnar heldur áfram en Valur hafði betur gegn FH í dag. Liðin mætast í lokaleik deildarinnar og ef fram heldur sem horfir verður það hreinn úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn.

Valur heldur áfram eins stigs forskoti á toppnum og fara með það forskot inn í síðustu fimm leikina þar sem sex efstu liðin mætast annars vegar og fjögur neðstu hins vegar.

Atvik leiksins

Það varð ljóst eftir einungis þriggja mínútna leik í seinni hálfleik að Blikar myndu fara með sannfærandi sigur af hólmi. Leikmenn Víkings komu hálf sofandi úr hálfleiknum og eins og hendi væri veifað var Breiðablik komið þremur mörkum yfir og ljóst hvoru megin sigurinn myndi lenda.

Stjörnur og skúrkar

Andrea Rut átti góðan leik en hún skoraði eitt mark, lagði upp annað og átti skot sem leiddi að því þriðja. Samantha Rose Smith var hættuleg í sóknarleik Breiðabliks og Vigdís Lilja átti góða innkomu af bekknum. Kristín Dís var svo góð í bakverðinum og skoraði gott mark.

Dómarar leiksins

Twana Khalid Ahmed og teymi hans áttu heldur rólegan dag. Mögulega hefði Erna Guðrún mátt fjúka út af þegar hún braut á Birtu í vítaspyrnudómnum ef metið er að Erna hafi verið verið ræna Birtu upplögðu marktækifæri.

Þá vildu Blikar meina að Sigurborg hafi verið komin af línunni þegar hún varði vítaspyrnu Katrínar.

Aðrir dómar orkuðu ekki tvímælis og fá Twana og hans aðsotðarmenn því átta í einkunn.

Stemming og umgjörð

Vel var mætt í blíðviðrinu í Kópavoginum í dag og fínasta stemming. Skemmtilegur leikur í hálfleik þar sem stuðningsmenn fengu tækifæri til þess að vinna veglega vinninga. All upp á tíu í umgjörðinni á Kópavogvellinum að vanda.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira