Enski boltinn

Hóg­vær Raya segir vörslu gær­dagsins ekki hafa verið hans bestu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
David Raya átti eina af vörslum tímabilsins í gær, strax í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.
David Raya átti eina af vörslum tímabilsins í gær, strax í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Nigel French/PA Images via Getty Images

David Raya, markvörður Arsenal, átti stóran þátt í því að liðið landaði 2-0 sigri er Skytturnar heimsóttu Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Heimamenn í Aston Villa fengu klárlega sín færi til að komast yfir í leik gærdagsins og besta færi leiksins kom á 54. mínútu. Amadou Onana átti þá skot fyrir utan teig sem fór af varnarmanni og Raya neyddist til að slá boltann í þverslána eftir að hafa runnið er boltinn stefndi að marki.

Ollie Watkins, sóknarmaður Aston Villa, tók frákastið og skallaði að marki þar sem Raya lá í jörðinni. Á einhvern ótrúlegan hátt náði Raya að lyfta sér frá jörðinni og slá boltann út í teig af marklínunni.

Í viðtali eftir leik var Raya hins vegar hógvær og vildi ekki meina að hann væri einhver hetja eftir þennan leik.

„Við erum allir hetjur af því að við vinnum saman. Þetta snérist ekki bara um mig að verja þennan skalla. Þetta var mikilvægt augnablik í stöðunni 0-0. Þeir fengu sín færi og ég var nægilega vel staðsettur til að verja skallann frá Ollie Watkins,“ sagði Raya eftir leikinn.

„Eftir því sem ég man best þá var þetta skot fyrir utan teig. Ég rann til og er ekki í nógu góðri stöðu til að grípa boltann. Svo sé ég bara Ollie koma á ferðinni og ég bregst við eins fljótt og ég get og sting hendinni út. Sem betur fer var svo enginn til að ráðast á þann bolta.“

„Þetta snýst bara um endurtekningu á æfingum. Maður gerir æfingar þar sem maður þarf að verja eitt skot og vera svo fljótur að standa upp og verja annað. Í þetta skipti borgaði það sig. Þetta var bara viðbragðsvarsla. Ég myndi ekki segja að þetta sé mín besta varsla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×