Leik lokið: Stjarnan - Þróttur 1-2 | Sigur­mark í uppbótartíma tryggði sæti í efri hlutanum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Þróttur kvk Anton
vísir/Anton

Þróttur sótti 2-1 sigur gegn Stjörnunni í úrslitaleik um sæti í efri hluta deildarinnar. Allt stefndi í jafntefli sem hefði dugað Stjörnunni en Sóley María Steinarsdóttir skoraði sigurmark Þróttar í uppbótartíma. 

Stjörnukonur stigu snemma upp sem sterkari aðilinn. Þær fengu nokkur fín færi og áttu mögulega skilið vítaspyrnu en ekkert dæmt. Markið lá í loftinu og skilaði sér svo á 18. mínútu.

Fyrirgjöf sem varnarmenn Þróttar voru í vandræðum með að hreinsa burt. Laus bolti í teignum, Jessica Ayers tróð sér fram af grimmd og kom honum í netið.

Eftir markið færðist meira jafnvægi í leikinn og Þróttur brást vel við því að lenda undir. Spiluðu boltanum betur milli sín en uppskáru engin almennileg færi.

Fyrr en á 38. mínútu þegar Caroline Murray tók sig til úti á vinstri vængnum, frábær einleikur og fyrirgjöf sem rataði til Sigríðar Theodóru Guðmundsdóttir sem stýrði boltanum í netið í fyrstu snertingu og skilaði jafnri stöðu þegar flautað var til hálfleiks.

Þróttur þurfti sigur og tók áhættur í seinni hálfleik til að sækja hann. Fátt um dauðafæri en Freyja Karín fékk eitt svoleiðis á 78. mínútu, sama uppskrift og í markinu sem Þróttur skoraði, Caroline Murray með einleik og frábæra fyrirgjöf en niðurstaðan ekki sú sama.

Stjarnan átti næstu sókn og sú var stór. Markaskorarinn Jessica Ayers fyrst með skot sem markmaðurinn rétt náði að blaka yfir. Úr því varð hornspyrna sem Hannah Sharts stangaði í slánna og yfir.

Færi á báða bóga og sigurinn hefði getað dottið hvoru megin sem er en það var Þróttur sem hreppti hann.

Á fyrstu mínútu uppbótartíma fékk Ísabella Anna boltann í fínu plássi á miðsvæðinu. Gat skotið eða sent, tók rétta ákvörðun og lagði boltann til hliðar á Sóleyju Maríu sem skaut ein gegn markverði í stöngina og inn. Þróttur með 1-2 sigur sem skilar þeim í efri hluta deildarinnar.

Framundan er svo úrslitakeppni efri og neðri hluta deildarinnar. Stjarnan verður í neðri hlutanum og spilar þrjá leiki gegn Tindastóli, Fylki og Keflavík. Leikir sem skipta engu máli þar sem Stjarnan hefur þegar bjargað sér frá falli.

Þróttur verður hins vegar í efri hlutanum og spilar fimm leiki við Val, Breiðablik, Þór/KA, Víking og FH. Engar líkur á titli en stærðfræðilegur möguleiki á þriðja sætinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira