Sigríður er leikmaður Þróttar og Hulda er hjá Stjörnunni. Liðin mætast á sunnudag í hreinum úrslitaleik um sæti í efri hluta deildarinnar. Stjörnunni dugir jafntefli en Þróttur þarf að sækja sigur. Liðið sem endar í neðri hlutanum er nú þegar búið að bjarga sér frá falli og því lítið spennandi leikir framundan.
Þær fjórar fóru vel yfir málin og hituðu rækilega upp fyrir helgina. Alls verða fimm leikir á dagskrá samtímis á sunnudaginn, úrslitakeppnin hefst svo eftir viku.
Báðar eru þær uppaldar hjá öðrum félögum, Hulda Hrund hjá Fylki en Sigríður var í Val.
Hún var spurð hver helsti munurinn væri á því að spila fyrir Val og fyrir Þrótt.
„Það er sorglegt hvað það mæta fáir [á Hlíðarenda] miðað við gæðin inni á vellinum, en í Þrótti er það allt annað. Nóg af Kötturum, þeir láta sig aldrei vanta. Ég var í smá sjokki hvað það mættu margir, maður finnur bara strax þegar maður kemur, fyrir stuðningnum úr Laugardalnum og þeir eru svo miklir meistarar,“ svaraði Sigríður Theodóra.
Talið færðist þá yfir til Huldu, sem kemur frá Fylki þar sem stemningin hefur verið mikil í sumar, en spilar nú með Stjörnunni þar sem stemningin er af skornum skammti.
„Já [við finnum fyrir þessu]. Ég veit ekki alveg hvað það er, kannski er tíminn eitthvað vitlaus á leikjunum. Þetta er mjög skrítið, maður sér heldur aldrei yngri flokka æfingar í kring þegar maður er að koma. Miðað við Fylki, þar voru krakkar út um allt og maður heilsaði, svo í sundlaugina sá maður þau þar líka, [stemningin] byggðist upp einhvern veginn.“
Upphitunarþáttinn má sjá í heild sinni hér fyrir ofan. Allir leikir lokaumferðarinnar fara fram klukkan 14:00 á sunnudag og verða í beinni útsendingu á sportrásum Stöðvar 2.
- FH – Valur
- Breiðablik – Víkingur
- Fylkir – Þór/KA
- Stjarnan – Þróttur
- Tindastóll – Keflavík