Erlent

Fólk stungið til bana á borgar­há­tíð í Þýska­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Vopnaðir lögreglumenn nærri staðnum þar sem maður stakk fólk í Solingen í Vestur-Þýskalandi í kvöld.
Vopnaðir lögreglumenn nærri staðnum þar sem maður stakk fólk í Solingen í Vestur-Þýskalandi í kvöld. AP/Gianni Gattus/dpa

Þrír eru látnir og fjórir alvarlega særðir eftir að maður stakk fólk handahófskennt á borgarhátíð í Solingen í Þýskalandi í kvöld. Árásarmaðurinn er óþekktur og gengur enn laus.

Árásin varð gerð á Fronhof-torgi í miðbænum á 650 ára afmælishátíð Solingen, um 160.000 manna bæjar í vestanverðu Þýskalandi, um klukkan 21:45 að staðartíma, 19:45 að íslenskum tíma, að sögn AP-fréttastofunnar.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir lögreglu að árásarmaðurinn sé talinn hafa verið vopnaður hnífi og að hann gangi enn laus. Það hefur jafnframt eftir þýska blaðinu Bild að maðurinn hafi stungið fólk handahófskennt. 

Umfangsmikil leit stendur yfir af morðingjanum sem er ókunnur lögreglu á þessari stundu.

Staðarblaðið Solingen Tageblatt segir að margir hátíðargestir hafi ekki orðið varir við árásina fyrr en skipuleggjendur tilkynntu að viðburðum hefði verið aflýst klukkan 22:00 að staðartíma.

Tim Kurzbach, bæjarstjóri Solingen, skrifaði á Facebook í kvöld að bæjarbúar væru í áfalli. Þeir hafi ætlað að fagna afmæli bæjarsins en þurfi nú að syrgja látið fólk.

„Það veldur mér djúpum harmi að árás hafi átt sér stað í bænum okkar,“ skrifaði Kurzbach.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Lögregla veit lítið um stungumanninn sem gengur enn laus

Lögregla leitar enn árásarmanns sem stakk þrjá til bana og særði að minnst átta á götuhátíð í þýsku borginni Solingen. Lögregla hefur litlar upplýsingar um brotamanninn sem talið er að hafi stungið fólk af handahófi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×