Enski boltinn

Jenas skammast sín og segist hafa haldið fram­hjá

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jermaine Jenas hafnar því að hafa sent nektarmyndir en viðurkennir að skilaboðin til samstarfskvenna hans hafi verið óviðeigandi.
Jermaine Jenas hafnar því að hafa sent nektarmyndir en viðurkennir að skilaboðin til samstarfskvenna hans hafi verið óviðeigandi. getty/Daniel Chesterton

Jermaine Jenas, sem var rekinn frá BBC fyrir að senda tveimur samstarfskonum sínum óviðeigandi skilaboð, segist skammast sín fyrir það sem hann gerði.

Jenas var reglulegur gestur í Match of the Day og stýrði The One Show á BBC. Hann var meðal annars nefndur sem mögulegur eftirmaður Garys Lineker með Match of the Day. 

Í viðtali við The Sun sagðist Jenas skammast sín. Hann hafi leitað sér hjálpar og sé í meðferð.

„Ég skammast mín svo mikið. Ég hef brugðist öllum; samstarfsfólki mínu, vinum mínum og síðast en ekki síst fjölskyldu minni. Ég fékk ótrúlegt tækifæri og veit að það er mér að kenna að núna finnst mér ég hafa misst allt. Mér finnst eins og fólk dæmi mig og ég sé skotmark númer eitt í landinu,“ sagði Jenas við The Sun.

Jenas sagðist jafnframt ekki hafa gert neitt ólöglegt og hann hafi ekki sent samstarfskonunum nektarmyndir. Hann segist líta svo á að hann hafi verið eiginkonu sinni, sem hann á þrjú börn með, ótrúr.

„Ég skulda öllum afsökunarbeiðni, sérstaklega konunum sem ég sendi skilaboðin. Ég skammast mín fyrir hvað ég læt þær ganga í gegnum,“ sagði Jenas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×