Fótbolti

Englandsmeistararnir hafa auga­stað á Orra

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Orri Steinn Óskarsson í leik með FCK gegn Manchester City í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í mars á þessu ári. Hér er hann að kljást við Erling Braut Haaland, en þeir gætu orðið liðsfélagar á næstunni.
Orri Steinn Óskarsson í leik með FCK gegn Manchester City í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í mars á þessu ári. Hér er hann að kljást við Erling Braut Haaland, en þeir gætu orðið liðsfélagar á næstunni. Shaun Botterill/Getty Images

Englandsmeistarar Manchester City fylgjast vel með gangi mála hjá íslenska landsliðsframherjanum Orra Steini Óskarssyni.

Það er David Ornstein, blaðamaður hjá The Athletic, sem greinir frá því að Englandsmeistararnir séu miklir aðdáendur Orra. Hann segir enn fremur að félagið íhugi að næla í leikmanninn til að vera norsku markamaskínunni Erling Braut Haaland til halds og trausts.

Orri leikur í dag með danska félaginu FC Kaupmannahöfn, en samkvæmt Ornstein er ólíklegt að City reyni að krækja í Orra í þessum félagsskiptaglugga. 

Þá kemur Ornstein einnig inn á að Orri sé metinn á um 20 milljónir evra, auk árangurstengdra bónusgreiðslna, og að önnur lið í ensku úrvalsdeildinni ásamt liðum á borð við Porto og Real Sociedad séu áhugasöm um framherjann.

Orri Steinn, sem verður tvítugur í vikunni, hóf feril sinn hjá Gróttu áður en hann hélt til Kaupmannahafnar árið 2022. Hann var á láni hjá SønderjyskE árið 2023 þar sem hann skoraði fjögur mörk í tólf deildarleikjum og hefur nú skorað 13 mörk í 36 deildarleikjum fyrir FCK.

Þá á Orri einnig að baki átta leiki fyrir íslenska landsliðið þar sem hann hefur skorað tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×