Fótbolti

Jóhann fær dýra­níðing og Tello sem liðs­fé­laga

Sindri Sverrisson skrifar
Kurt Zouma í baráttu við Erling Haaland á síðustu leiktíð, í búningi West Ham.
Kurt Zouma í baráttu við Erling Haaland á síðustu leiktíð, í búningi West Ham. Getty

Nýja félagið hans Jóhanns Bergs Guðmundssonar, landsliðsfyrirliða í fótbolta, heldur áfram að fá til sín leikmenn fyrir átökin í efstu deild Sádi-Arabíu á leiktíðinni sem var að hefjast.

Al-Orobah kynnti Jóhann til leiks á föstudaginn síðasta og nú greinir félagaskiptafréttamaðurinn Fabrizio Romano frá því að Kurt Zouma og Cristian Tello séu á leið í læknisskoðun hjá félaginu.

Zouma kemur til Al-Orobah beint úr ensku úrvalsdeildinni þar sem hann átti fast sæti í liði West Ham undir stjórn David Moyes, jafnvel eftir að hafa skapað sér miklar óvinsældir þegar hann sást á myndbandi beita ketti ofbeldi.

Zouma var hins vegar ekki inni í plönum nýja stjórans hjá West Ham, Julen Lopetegui, og er því mættur til Sádi-Arabíu.

Zouma er franskur miðvörður og verður þrítugur í haust. Tello er hins vegar 33 ára sóknar- og kantmaður sem á sínum tíma var leikmaður Barcelona en lék einnig með Porto, Fiorentina og Real Betis. Hann hefur spilað í Sádi-Arabíu síðan í ársbyrjun 2023 þegar hann gekk í raðir Al-Fateh.

Cristian Tello lék um árabil með Real Betis og áður Barcelona.Getty/Juanjo Ubeda

Al-Orobah vann sig upp í efstu deild á síðustu leiktíð. Liðið spilaði sinn fyrsta leik á tímabilinu á föstudaginn þegar það tapaði 2-0 fyrir Al Ahli, og lék Jóhann Berg nánast allan leikinn. Abdulkarim Darisi og Roberto Firmino skoruðu mörk Al Ahli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×