Bandarískur ferðamaður lést og kona hans slasaðist þegar ís hrundi úr gili á Breiðamerkjujökli um miðjan dag í gær. Parið var hluti af gönguhópi á vegum ferðaþjónustufyrirtækis.
Upphaflega veitti fyrirtækið lögreglu þær upplýsingar að 25 hefðu verið í ferðinni og því var tveggja erlendra ferðmanna saknað. Tugir manna unnu að því að fjarlægja ís handvirkt til að leita að fólki undir ísnum. Í ljós kom að upplýsingar fyrirtækisins voru rangar og aðeins 23 voru í hópnum. Aldrei var því nokkur undir ísnum.
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að þar sem fyrirtækið hafi ekki getað gert almennilega grein fyrir hverjir þessir tveir sem áttu að vera saknað hafi viðbragðsaðilar ekki viljað hætta leit fyrr en þeir hefðu sannfært sig um að enginn væri undir ísnum.
Björgunarlið var þó ekki meðvitað um að möguleiki væri á að einskis væri saknað fyrr en líða tók á leitina.
„Auðvitað læðist sá grunur þegar þú ert búinn að vera leita og leita að einhverjum nöfnum að það geti verið en þú ert aldrei með þá vissu fyrir hendi fyrr en þú ert búinn að leita af þér allan grun,“ segir Sveinn Kristján.

Ekki er ljóst hvernig misræmið í fjölda ferðamannanna kom til. Sveinn segir málið til rannsóknar og að skýrslur verði teknar af starfsmönnum bókunarfyrirtækis og leiðsögufyrirtækis. Hann býst ekki við að nokkuð saknæmt hafi átt sér stað.
„Það er nauðsynlegt að fá botn í þetta [...] þannig að svona gerist ekki aftur,“ segir hann.
Rannsóknin beinist meðal annars að því hver teljist ábyrgur fyrir ferðinni, bókunaraðili eða skipuleggjandi ferðarinnar. Sveinn Kristján vildi ekki staðfesta hvaða fyrirtæki hefðu staðið að ferðinni á jökulinn í gær.