Innlent

Engar frekari ís­hella­ferðir að svo stöddu

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Á Breiðamerkurjökli í dag.
Á Breiðamerkurjökli í dag. Vísir/Vilhelm

Vatnajökulsþjóðgarður hefur farið þess á leit við ferðaþjónustuaðila sem við á, að þeir fari ekki í íshellaferðir á svæði þjóðgarðsins að svo stöddu. Allir hafa brugðist vel við þeirri beiðni, að því er kemur fram í tilkynningu frá þjóðgarðinum. Þá segir að til skoðunar hafi verið að gera enn meiri kröfur til rekstraraðila sem starfa í þjóðgarðinum.

„Vatnajökulsþjóðgarður harmar að slysið skuli hafa átt sér stað. Hugur starfsfólks Vatnajökulsþjóðgarðs er hjá þeim sem eiga um sárt að binda vegna slyssins. Þá vill þjóðgarðurinn þakka þeim fjölmörgu viðbragðsaðilum sem sinntu störfum við afar krefjadi aðstæður og öðrum sem lögðu aðgerðunum lið,“ segir í tilkynningu Vatnajökulsþjóðgarðs.

Þá segir að heimildir þjóðgarðsins til að loka fyrir umferð um svæðið séu takmarkaðar. Þjóðgarðurinn og Ferðamálastofa hafi þó þegar hafi samtal við hlutaðeigandi aðila innan ferðaþjónustunnar og stjórnsýslunnar um mögulegar úrbætur og aðgerðir vegna slyssins.

Umfangsmiklar aðgerðir stóðu yfir á jöklinum í dag.Vísir/Vilhelm

„Rekstraraðilar sem hafa leyfi til íshellaferða og jöklagangna innan þjóðgarðsins þurfa að vera með eigin öryggisáætlun og einnig að vera með leyfi sem ferðasali dagsferða frá Ferðamálastofu. Einnig þarf að uppfylla gildandi gæðaviðmið varðandi íshellaskoðun og gönguferðir í fjallendi við vetraraðstæður og á jöklum,“ segir enn fremur.

Til skoðunar hafi verið að gera enn meiri kröfur til rekstraraðila sem starfa í þjóðgarðinum, og sú vinna hafi verið unnin í nánu samstarfi við hagsmunaaðila. Von sé á tillögum síðar í haust.

Bent er á auglýsingu til rekstraraðila sem vilja bjóða upp á íshellaferðir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×