Fótbolti

Norska fé­lagið einum leik frá að lág­marki fjórum milljörðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Verða þeir gulu glaðir? Patrick Berg og félagar í Bodö/Glimt geta orðið fyrsta norska liðið í sautján ár til að komast í Meistaradeildina.
Verða þeir gulu glaðir? Patrick Berg og félagar í Bodö/Glimt geta orðið fyrsta norska liðið í sautján ár til að komast í Meistaradeildina. Getty/Kent Even Grundstad/

Það er mikið undir hjá mörgum félögum í Evrópufótboltanum í þessari viku enda kemur þá í ljós hvaða lið komast í Meistaradeildina, Evrópudeildina og Sambandsdeildina.

Víkingar eru í frábærum málum í sínu einvígi í umspili Sambandsdeildarinnar en það er miklu hærri peningaupphæð undir hjá norska félaginu Bodö/Glimt. NRK segir frá.

Bodö/Glimt á möguleika á því að komast í aðalkeppni Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Meistaradeildin gæti verið á leiðinni norðar en nokkurn tímann fyrr því Bodö/Glimt er með heimavöll sinn nyrst í Noregi. Liðið spilar í bænum Bodö sem er fyrir norðan heimskautsbauginn.

Norska liðið vann 2-1 sigur á Rauðu Stjörnunni í fyrri leik liðanna í umspilinu en þau mætast aftur í Belgrad annað kvöld.

Bodö/Glimt var líka í þessari stöðu fyrir tveimur árum. Liðið vann þá króatíska félagið Dinamo Zagreb 1-0 í fyrri leiknum en tapaði seinni leiknum í Króatíu eftir framlengingu. Þá dó draumurinn en nú er annað tækifæri.

Með því að komast í Meistaradeildina þá væri Bodö/Glimt öruggt með 27,26 milljónir evra af sjónvarpspeningunum eða 4,18 milljarða íslenskra króna.

Í viðbót getur liðið hækkað þessa upphæð með góðum úrslitum í Meistaradeildinni. Fyrir hvern sigur fær félagið 318 milljónir króna og hvert jafntefli gefur liðinu 106 milljónir. Þá fær liðið pening fyrir að ná ákveðnu sæti þar sem síðasta sætið gefur 42 milljónir króna.

Takist Bodö/Glimt að komast í Meistaradeildina þá verður það fyrsta norska félagið til að komast þangað síðan Rosenborg var í Meistaradeildinni tímabilið 2007-08.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×