Innlent

Börn sofi ekki úti í vagni vegna gosmóðu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Gosmóðu gæti orðið vart á Suðvesturhorninu í dag.
Gosmóðu gæti orðið vart á Suðvesturhorninu í dag. Vísir/Arnar

Þess má vænta að töluverð gosmóða og reykur frá gróðureldum vegna eldgossins við Sundhnúksgíga leggist yfir byggð í dag. Gosvirkni hefur verið stöðug í nótt og strókavirkni kröftug.

Móða hefur legið yfir Suðurlandi, Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu og sýnir dreifingarspá að gasmengun leiti helst til vesturs í átt að Svertsengi og Höfnum í dag.

„Núna er gosmóða sýnileg og mælanleg á Suðvesturhorninu. Það er ekki í miklu mæli, þetta er ekki heilsufarsspillandi nema fólk sem er viðkvæmt fyrir gæti fundið fyrir einhverjum einkennum og það ætti að forðast áreynslu utandyra sem og börn ættu ekki að sofa úti í vagni meðan það mælist gosmengun,“ segir Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, og vísar á loftgæði.is. 

Síðdegis snýst til norðanáttar og mun móðan þá leggjast suður yfir Grindavík og jafnvel Suðurland. 

„Í dag mun gasmengun, þá sem sagt ekki gosmóða heldur brennisteinsdíoxíð, fara vestur yfir Hafnir og Svartsengi og seinni partinn fer það að fara meira í suður yfir Grindavík. Hins vegar er svolítið af gosmóðu á flakki með suðurströndinni og gæti verið að fólk verði hennar vart á Suðurlandi.“


Tengdar fréttir

Sýnileg gasmengun en ekki hættuleg

Gasmengun mælist í Reykjanesbæ og nágrenni vegna eldgossins sem enn mallar á Reykjanesskaga. Að sögn náttúruvársérfræðings stafar ekki hætta af menguninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×