Fjallað er um málið í Morgunblaðinu en það er nýjasti liðurinn í áralangri deilu Skúla Gunnars, sem jafnan er kenndur við Subway, og Sveins Andra. Krafan er byggð á matsgerð dómkvadds matsmanns, sem telur að Sveinn Andri hafi sem skiptastjóri áðurnefnds þrotabús skrifað á sig of margar vinnustundir og innheimt of hátt tímagjald.
Kostnaður við skipti félagsins nam tæplega 200 milljónum króna en þóknun Sveins Andra nam 170 milljónum.
Í matsgerðinni, sem skilað var í júní, kemur fram að hæfileg þóknun til skiptastjóra hefði átt að nema 74 til 78 milljónum króna, tæplega 100 milljónum minna en Sveinn Andri fékk. Þá hefði fjöldi vinnustunda eins átt að nema 1.600 til 1.900 klukkustundir en tæplega 3.450 vinnustundir voru skráðar við slit á búinu.
Skúli Gunnar fór fram á að dómkvaddur matsmaður tæki störf Sveins Andra út. Er það mat lögmanns Skúla að hægt hefði verið að gera upp skuldir búsins og skila því til fyrri eigenda.
Jafnframt kemur fram í frétt Morgunblaðsins að lögmaðurinn hafi sent öðrum kröfuhöfum bréf og þeim boðið að taka þátt í málarekstri gegn Sveini Andra.