Fótbolti

Ó­vænt hættur í fót­bolta: „Hjartað er ekki lengur þar“

Sindri Sverrisson skrifar
Síðustu leikir Wojciech Szczesny voru með Póllandi á EM í sumar.
Síðustu leikir Wojciech Szczesny voru með Póllandi á EM í sumar. Getty/Mikolaj Barbanell

Pólski landsliðsmarkvörðurinn Wojciech Szczesny hefur ákveðið að leggja hanskana á hilluna, 34 ára gamall, eftir farsælan feril þar sem hann lék lengst af með stórliðum Arsenal og Juventus.

Fréttirnar koma nokkuð á óvart en Szczesny segir að þó að líkaminn sé alveg klár í að spila áfram á hæsta stigi þá hafi hann fundið í hjarta sínu að nú væri best að segja stopp.

Szczesny lék 84 landsleiki fyrir Pólland og fór á sex stórmót. Hann lék 181 leiki fyrir Arsenal eftir að hafa komið til félagsins 16 ára gamall, árið 2006, og vann tvo bikarmeistaratitla og Samfélagsskjöld.

Hann lék svo 252 leiki fyrir Juventus eftir að hann kom til félagsins árið 2017. Hann vann alls átta titla á Ítalíu áður en samningur hans við Juventus rann út í vor.

„Ég náði ekki bara að láta draum minn rætast heldur komst ég lengra en ég þorði að ímynda mér. Ég spilaði leikinn á hæsta stigi með bestu leikmönnum sögunnar án þess að finnast ég nokkurn tímann vera þeirra eftirbátur,“ skrifaði Szczesny á Instagram.

Auk þess að spila með Arsenal og Juventus lék hann sem lánsmaður með Brentford um skamman tíma og svo tvær leiktíðir sem lánsmaður hjá Roma.

„Ég hef eignast vini fyrir lífstíð, skapað ógleymanlegar minningar og hitt fólk sem hefur haft gríðarleg áhrif á líf mitt. Allt það sem ég á og allt það sem ég er, það á ég þessari fögru íþrótt að þakka.

Ég tileinkaði leiknum 18 ár ævi minnar, hvern dag, án afsakana,“ skrifaði Szczesny og bætti við:

„En þó að ég finni það í dag að líkaminn sé tilbúinn í fleiri áskoranir þá er hjartað ekki lengur þar. Núna vil ég veita fjölskyldu minni alla mína athygli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×