Erlent

Segjast hafa bjargað gísl úr jarð­göngum á Gasa

Kjartan Kjartansson skrifar
Kaid Fahran Alkadi sem var frelsaður úr haldi Hamas í dag.
Kaid Fahran Alkadi sem var frelsaður úr haldi Hamas í dag. AP/The Hostages Families Forum

Ísraelsher segist hafa frelsað karlmann á sextugsaldri sem vígamenn Hamas-samtakanna tóku í gíslingu í október. Manninum var haldið í neðanjarðargöngum á sunnanverðri Gasaströndinni.

Ekki liggur fyrir hvernig Kaid Farhan Alkadi var bjargað úr haldi Hamas í aðgerð ísraelska hersins. Herinn segir að honum hafi verið bjargað úr göngum í „flókinni aðgerð“ en hvorki kom fram hvort að til bardaga hefði komið né hvort nokkur hefði fallið. Alkadi hafði verið gísl Hamas-samtakanna frá árás þeirra á Ísrael 7. október sem varð kveikjan að stríði Hamas og Ísraels.

Alkadi, sem er einn átta úr þjóðernisminnihluta bedúína sem voru hnepptir í gíslingu, vann sem öryggisvörður í pökkunarverksmiðju í bænum Kibbutz Magen. Hann á tvær eiginkonur og ellefu börn, að sögn AP-fréttastofunnar.

Talsmaður ísraelska hersins segir að Alkadi hafi verið haldið á nokkrum stöðum þá 326 daga sem honum var haldið í gíslingu. Leyniþjónustan hafi fengið njósnir af því hvar honum var haldið sem reyndust á rökum reistar.

Enn er talið að 108 gíslar séu enn á Gasa en að fleiri fjörutíu þeirra séu látnir. Ísraelar hafa frelsað átta gísla í hernaðaraðgerðum sem kostuðu fjölda mannslífa. Um fjörutíu þúsund Palestínumenn hafa fallið í hernaði Ísraels á Gasa í kjölfar árásar Hamas í október.


Tengdar fréttir

Fundu lík fimm Ísraelsmanna í Khan Younis

Ísraelsher hefur endurheimt lík fimm Ísraelsmanna sem voru myrtir í árásunum 7. október síðastliðinn en Hamas-liðar höfðu á brot með sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×