Fótbolti

Luka­ku sam­þykkir að spila undir stjórn Conte

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lukaku er á leið til Ítalíu á nýjan leik.
Lukaku er á leið til Ítalíu á nýjan leik. vísir/Getty Images

Belgíski framherjinn Romelu Lukaku hefur samþykkt að ganga í raðir Napoli á Ítalíu.

Hinn 31 árs gamli Lukaku mun nú ferðast til Ítalíu til að ganga frá sínum málum. Ekki kemur fram í frétt The Athletic um málið hversu hár verðmiðinn er en Napoli hefur verið á eftir Lukaku í allt sumar.

Það gæti farið svo að Victor Osimhen, hinn eftirsótti framherji Napoli, fari í hina áttina en Chelsea hefur verið gríðarlega virkt á leikmannamarkaðnum í sumar. Það kemur þó fram í frétt The Ahletic að félagið sé að reyna skera leikmannahóp sinn niður með sölum eða lánum.

Lukaku, sem hefur skorað 85 mörk í 119 A-landsleikjum, lék undir stjórn Antonio Conte hjá Inter Milan og varð meðal annars ítalskur meistari undir hans stjórn. Þeir stefna nú á að endurtaka leikinn hjá Napoli.

Ásamt því að losa Lukaku til Ítalíu er Chelsea við það að lána markvörðinn Kepa Arrizabalaga til Bournemouth. Kepa var á sínum tíma dýrasti markvörður heims en hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarið og var á láni hjá Real Madríd á síðustu leiktíð.

Þrátt fyrir að Thibaut Courtois hafi verið fjarverandi vegna meiðsla nærri alla leiktíðina mátti Kepa samt þola það að sitja á bekknum á meðan Andriy Lunin stóð á milli stanganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×