Fótbolti

Høj­bjerg nýr fyrir­liði Dan­merkur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mun bera fyrirliðabandið þegar Danmörk mætir til leiks í Þjóðadeildinni.
Mun bera fyrirliðabandið þegar Danmörk mætir til leiks í Þjóðadeildinni. EPA-EFE/RONALD WITTEK

Hinn 29 ára gamli Pierre-Emile Højbjerg fær það verðuga verkefni að fylla skarðið sem Simon Kjær skilur eftir sig í karlalandsliði Danmerkur í knattspyrnu en Højbjerg er nýr fyrirliði liðsins.

Þetta var tilkynnt í dag, þriðjudag. Þessi orkumiklu miðjumaður gekk í raðir Marseille í Frakklandi í sumar eftir að hafa leikið fyrir Tottenham Hotspur frá árinu 2020. Þar áður var hann fjögur ár í Southampton.

„Ég ser gríðarlega stoltur að standa hér fyrir framan ykkur sem nýr fyrirliði landsliðsins. Ég veit vel hvað fylgir því að bera bandið og vil ávallt vera besta útgáfan af sjálfum sér,“ sagði miðjumaðurinn á heimasíðu danska knattspyrnusambandsins.

Højbjerg á að baki 81 A-landsleik en gömlu brýnin Kasper Schmeichel og Christian Eriksen verða varafyrirliðar í komandi verkefnum Danmerkur.

Það verður vandasamt verkefni að fylla skarðið sem Kjær skilur eftir sig en hann er gríðarlega vel metinn innan danska hópsins, knattspyrnusambandsins og Danmerkur almennt.

Danmörk tekur á móti Sviss á Parken í Kaupmannahöfn þann 5. september næstkomandi en um er að ræða fyrsta leik liðanna í I-riðli Þjóðadeildarinnar. Þremur dögum síðar mætir Serbía á Parken en ásamt þjóðunum þremur eru Evrópumeistarar Spánar í I-riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×