Fótbolti

„Sorgardagur fyrir fót­boltann“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liðsfélagi Juan Izquierdo kallar eftir hjálp eftir að Izquierdo hneig liður í leik Sao Paulo og Nacional í Copa Libertadores.
Liðsfélagi Juan Izquierdo kallar eftir hjálp eftir að Izquierdo hneig liður í leik Sao Paulo og Nacional í Copa Libertadores. Getty/Alexandre Schneider

Úrúgvæski knattspyrnumaðurinn Juan Izquierdo, sem hneig niður í Copa Libertadores leik í síðustu viku, er látinn.

Hinn 27 ára gamli Izquierdo hafði legið á sjúkrahúsi síðan hann fluttur þangað frá leik Nacional og Sao Paulo 22. ágúst en leikurinn var spilaður í Brasilíu.

Þetta var stórleikur í sextán liða úrslitum í Suðurameríkukeppni félagsliða sem heitir Copa Libertadores. Sao Paulo vann leikinn 2-0 og komst áfram í átta liða úrslitin.

Izquierdo glímdi við óreglulegan hjartslátt og missti meðvitund á 84. mínútu leiksins. Það var enginn annar leikmaður nálægt þegar hann hneig niður.

Izquierdo var fluttur á Albert Einstein sjúkrahúsið og hafði verið í gjörgæslu síðan. Því miður tókst ekki að bjarga lífi hans.

Club Nacional tilkynnti um andlát leikmanns síns á samfélagsmiðlum og sagði alla hjá félaginu vera í áfalli. „Við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldu hans, vina, kollega og ástvina. Allir hjá Nacional syrgja þennan óbætanlega missi, sagði í tilkynningunni.

Izquierdo hafði spilað yfir hundrað leiki í efstu deild í Úrúgvæ og varð meistari með bæði Nacional og Liverpool (frá Montevideo).

„Sorgartími hjá öllum suðurameríska fótboltanum,“ sagði Alejandro Dominguez, forseti CONMEBOL, knattspyrnusambands Suður-Ameríku.

Sao Paulo félagið sagði að þetta væri „sorgardagur fyrir fótboltann“ þegar það greindi frá fréttunum á sínum miðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×