Innlent

Ógnandi betlari og vopnuð börn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti útkalli í heimahúsi í nótt þar sem maður hafði verið sleginn með spýtu í höfuðið.
Lögregla sinnti útkalli í heimahúsi í nótt þar sem maður hafði verið sleginn með spýtu í höfuðið. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölbreyttum verkefnum í gærkvöldi og nótt og var meðal annars kölluð til vegna konu sem var að betla og ógnaði þeim sem tilkynnti.

Konan var farin þegar lögregla kom á vettvang.

Lögregla hafði einnig afskipti af þremur erlendum ríkisborgurum vegna gruns um brot á lögum um atvinnuréttindi útlendinga en fólkið var látið laust eftir að það hafði framvísað skilríkjum á lögreglustöð.

Tveir voru handteknir eftir eftirför lögreglu en ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Sá reyndi að hlaupa undan lögreglu en náðist fljótlega. Farþeginn í bifreiðinni reyndi að aka á brott en var stöðvaður og sömuleiðis handtekinn fyrir akstur undir áhrifum.

Vísbendingar eru uppi um að viðkomandi hafi framið önnur brot og er málið í rannsókn.

Lögregla sinnti nokkrum útköllum vegna ungmenna en í einu tilvikinu var um að ræða börn sem voru að reyna að brjóta sér leið inn í yfirgefið húsnæði. Voru krakkarnir tregir til að gefa upp nöfn og kennitölur og voru flutt á lögreglustöð.

Foreldrar og barnavernd voru á endanum látin vita. Hnífur fannst á einu ungmennanna, sem verður ákært fyrir vopnalagabrot.

Rétt fyrir klukkan 23 var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna vopnaðs ráns en þar voru tveir strákar yngri en 18 ára sagðir hafa beitt annað barn hótunum um ofbeldi og ógnað með hnífi. Höfðu þeir verðmæti af þolandanum.

Drengirnir voru handteknir eftir miðnætti og vistaðir í fangageymslu að höfðu samráði við barnavernd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×