Erlent

Tíu drepnir í á­rásum Ísraelshers á Vestur­bakkanum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Konur syrgja látnu í Tulkarem.
Konur syrgja látnu í Tulkarem. AP/Nasser Nasser

Minnst tíu Palestínumenn voru drepnir í áhlaupum og loftárásum ísraelska hersins á Vesturbakkann í nótt. Þetta fullyrðir talsmaður Rauða hálfmánans í Palestínu.

Ísraelsher hefur frá upphafi stríðsins 7. október í fyrra reglulega ráðist á byggðir Palestínumanna á Vesturbakkanum. Meira en 640 Palestínumenn hafa verið drepnir í árásum hersins og landnema, þar af meira en hundrað börn.

Fréttastofa Times of Israel hefur það eftir heimildamönnum innan hersins að gert sé ráð fyrir að yfirstandandi aðgerðir muni vara nokkra daga.

Tveir voru drepnir í borginni Jenín, fjórir í nærliggjandi þorpi og fjórir til viðbótar í flóttamannabúðum nærri bænum Tubas samkvæmt upplýsingum frá Rauða hálfmánanum. 

Fimmtán til viðbótar eru særðir.

Ísraelsher segir aðgerðirnar lið í því að uppræta hryðjuverkastarfsemi í Jenín og Tulkarm, á norðurhluta Vesturbakkans. Hann segir jafnframt að í aðgerðum hafi hernum tekist að handsama nokkra eftirlýsta Palestínumenn.

Samkvæmt fréttum palestínskra miðla hefur Ísraelsher setið um sjúkrahús í Tulkarm og bannað Palestínumönnum að ferðast inn og út úr borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×