Erlent

Braut gegn hundruðum stúlkna í 20 ríkjum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rasheed var handtekinn eftir ábendingar frá Interpol og yfirvöldum í Bandaríkjunum.
Rasheed var handtekinn eftir ábendingar frá Interpol og yfirvöldum í Bandaríkjunum. Getty

Muhammad Zain Ul Abideen Rasheed hefur verið dæmdur í 17 ára fangelsi fyrir að hafa kúgað hundruð stúlkna út um allan heim til þess að sýna sig í kynferðislegum athöfnum á netinu.

Ákæruliðirnir gegn Rasheed voru 119 og tengdust 286 þolendum frá 20 ríkjum, þeirra á meðal Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og Japan. Tveir þriðjuhlutar fórnarlambanna voru yngri en 16 ára.

Rasheed myndaði tengsl við fórnarlömb sín með því að þykjast vera ónefnd 15 ára bandarísk YouTube-stjarna. Samtölin urðu kynferðislegri eftir því sem á leið og að lokum hótaði hann því að birta þau og senda á vini og fjölskyldumeðlimi ef stúlkurnar gerðu ekki eins og hann sagði.

Hinar kynferðislegum athafnir urðu smám saman meira og meira niðurlægjandi, að því er kemur fram í umfjöllun fjölmiðla, og beindust í sumum tilvikum að öðrum börnum á heimili þolandans eða jafnvel gæludýrum.

Dómarinn í málinu komst að sömu niðurstöðu og saksóknarinn; að um væri að ræða fordæmalaust mál og eitt það ógeðfelldasta sem komið hefði upp í Ástralíu.

Margar stúlknanna höfðu trúað Rasheed, í dulargervi YouTube-stjörnu, fyrir því að þær ættu við erfiðleika að stríða og væru jafnvel í sjálfsvígshugleiðingum. Dómarinn sagði Rasheed hafa virt þetta að engu og haldið áfram að kúga þær þrátt fyrir augljósa vanlíðan þeirra og ótta.

Rasheed er sagður hafa tilheyrt svokölluðu „incel“-samfélagi á netinu og bauð öðrum, allt að 98 í einu, að horfa á ofbeldið með sér. Hann situr nú þegar í fangelsi þar sem hann afplánar fimm ára dóm fyrir að brjóta gegn 14 ára stúlku  í bifreið sinni í almenningsgarði í Perth.

Umfjöllun BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×