Körfubolti

Nýr Þórsari kynntur: „Hann kemur frá Cleveland líkt og Lebron James“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marreon Jackson sést hér í leik með Arizona State skólanum í febrúar 2022.
Marreon Jackson sést hér í leik með Arizona State skólanum í febrúar 2022. Getty/Steph Chambers

Þórsarar hafa nú opinberað nýjan bandarískan bakvörð á miðlum sínum en Marreon Jackson mun spila með Þorlákshafnar Þórsurum í Bónus deild karla í körfubolta í vetur.

„Hann kemur frá Cleveland líkt og Lebron James og er þekktur fyrir hraðan leik, mikla orku og útsjónarsemi,“ segir í fréttinni á miðlum Þórsara.

Marreon hóf atvinnumannaferilinn sinn í Tyrklandi þar sem hann spilaði í sömu deild og Þórsarinn Tobin Carberry og nú síðast spilaði hann með Lavrio í Grikklandi.

Jackson var með 10,4 stig og 4,0 stoðsendingar í leik á síðasta ári sínu í háskóla með Arizona State skólanum.

Hann skoraði aftur á móti aðeins 4,2 stig í leik í grísku deildinni á síðustu leiktíð og entist aðeins í sex leiki. Marreon byrjaði það tímabil í Eistlandi þar sem hann var með 5,8 stig og 3,0 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Fyrri þá sem muna ekki eftir Tobin Carberry þá hann var með 27,3 stig, 11,0 fráköst og 4,4 stoðsendingar í leik með Þórsliðinu veturinn 2016-17. Það væri draumur fyrir liðið ef þeir fá svipaðar tölur frá Jackson í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×