Viðskipti innlent

Hreyfill gerir sátt við Samkeppniseftirlitið eftir kvörtun Hopp

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Samkeppniseftirlitið og leigubílafyrirtækið Hreyfill svf. hafa gert með sér sátt.
Samkeppniseftirlitið og leigubílafyrirtækið Hreyfill svf. hafa gert með sér sátt.

Samkeppniseftirlitið og leigubílafyrirtækið Hreyfill svf. hafa gert með sér sátt vegna háttsemi Hreyfils sem fólst í því að banna leigubifreiðastjórum sem eru í þjónustu hjá Hreyfli að nýta sér þjónustu annarra leigubifreiðastöðva. Upphaf málsins má rekja til kvörtunar Hopp leigubílum ehf. til eftirlitsins vegna háttsemi Hreyfils. Í sáttinni felst meðal annars að Hreyfill muni ekki hindra að leigubifreiðastjórar sem keyra fyrir stöðina nýti sér einnig aðra þjónustuaðila sem sinna leigubílaakstri.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu en með sáttinni lýkur rannsókn stofnunarinnar á Hreyfli.

Þá mun Hreyfill samkvæmt sáttinni einnig gera aðrar nauðsynlegar breytingar, annars vegar á samþykktum félagsins og hins vegar á stöðvarreglum þess með það að leiðarljósi að tryggja samræmi við þær skyldur sem hvíli á Hreyfli samkvæmt samkeppnislögum að því er segir í tilkynningunni.

Líkt og áður segir hófst málið með kvörtun Hopp leigubíla ehf. þar sem kvartað var undan framangreindri háttsemi Hreyfils. Vegna þeirrar kvörtunar tók eftirlitið bráðabirgðaákvörðun í júlí í fyrra sem kveður á um “sennilegt brot brot Hreyfils svf. gegn samkeppnislögum“ og Hreyfli gert að láta af umræddri háttsemi sem ítarlega er rakin í bráðabirgðaákvörðuninni.

Þá beinir Samkeppniseftirlitið þeim tilmælum til leigubifreiðastöðva sem starfa á Íslandi „að gæta að því að samningar þeirra við leigubifreiðastjóra feli ekki sér ólögmætar samkeppnishindranir.” 

Sáttina í heild sinni má lesa hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×