Erlent

Þrír nýir ráð­herrar í Dan­mörku: „Við erum farin inn að spila skák“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Ráðherraskákin í Danmörku mun skýrast betur á morgun en leiðtogar ríkisstjórnarinnar, Mette Frederiksen, Troels Lund Poulsen og Lars Løkke Rasmusen kynntu áformin á blaðamannafundi í dag. 
Ráðherraskákin í Danmörku mun skýrast betur á morgun en leiðtogar ríkisstjórnarinnar, Mette Frederiksen, Troels Lund Poulsen og Lars Løkke Rasmusen kynntu áformin á blaðamannafundi í dag.  EPA-EFE/Mads Claus Rasmussen

Þrjú ný ráðuneyti verða stofnuð í Danmörku og næsti fulltrúi Dana í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur verið valinn. Mette Frederiksen forsætisráðherra tilkynnti um þetta í hádeginu í dag á blaðamannafundi ásamt þeim Troels Lund Poulsen varnarmálaráðherra og Lars Løkke Rasmusen utanríkisráðherra en saman mynda flokkar þeirra ríkisstjórn landsins.

Stofnuð verða ný ráðuneyti Evrópumála, ráðuneyti samfélagsöryggis og neyðarvarna og ráðuneyti sem mun stýra innleiðingu loftlagsaðgerða. Þá verður Dan Jørgensen fulltrúi Danmerkur í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins en hann gegnir nú embætti ráðherra þróunarsamvinnu og hnattrænna loftslagsmála í dönsku ríkisstjórninni. Á morgun verður tilkynnt um hverjir taka við nýju ráðuneytunum og eftir atvikum frekari uppstokkun í ráðherraliði ríkisstjórnarinnar sem í sitja þegar tuttugu og þrír ráðherrar.

Ýmis atriði á eftir að útskýra nánar hvað varðar þessar boðuðu breytingar hjá ríkisstjórninni að því er fram kemur í umfjöllun DR um málið. Fyrir liggur þó að ríkisstjórnarflokkarnir munu á næsta ári greiða atkvæði með því að hækka eftirlaunaaldur í 70 ár á næsta ári, mál sem hefur verið þónokkuð umdeilt í dönsku samfélagi og var til umræðu á blaðamannafundinum fyrr í dag.

Undir lok blaðamannafundarins og eftir að hafa svarað spurningum fréttamanna þakkaði Mette Frederiksen forsætisráðherra áheyrnina og boðaði að frekari tíðinda væri að vænta á morgun um uppstokkunina í ríkisstjórninni. „Takk fyrir að hlusta, við erum farin inn að spila skák,“ sagði Frederiksen áður en þremenningarnir yfirgáfu fundarsalinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×