Fótbolti

„Gef Orra ráð ef hann spyr“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Orri Steinn í glímu við Haaland en þeir gætu orðið liðsfélagar.
Orri Steinn í glímu við Haaland en þeir gætu orðið liðsfélagar. Getty/Shaun Botterill

Åge Hareide landsliðsþjálfari segist almennt ekki skipta sér af því hvar leikmenn spili en er aftur á móti alltaf til í að gefa góð ráð ef leikmenn biðja um það.

Framherjinn Orri Steinn Óskarsson var á dögunum sagður vera undir smásjá Man. City. Hann væri þá hugsaður sem varamaður fyrir Erling Haaland.

„Það er mikilvægt að skipta sér ekki of mikið af leikmönnum landsliðsins. Menn taka sínar ákvarðanir ásamt umboðsmönnum sínum. Ef Orri Steinn biður mig um ráð þá gef ég þau að sjálfsögðu. Margir leikmenn gera það,“ sagði Hareide og bætti við.

„Ef Orri færi til City þá fengi hann örugglega mikla launahækkun en hann myndi þurfa að sætta sig við bekkjarsetu. Það er ekki gott fyrir mig og landsliðið.“

Orri Steinn hefur raðað inn mörkum fyrir FCK í upphafi tímabils og það hefur glatt þjálfarann sem hrósar Orra mikið.

„Auðvitað vill maður hafa landsliðsmenn í sem bestum félögum. Orri er í góðu liði og að spila vel. Ef hann færi til City myndi hann líka græða á því að æfa með heimsklassaleikmönnum.

„Orri er mjög hæfileikaríkur. Hann tímasetur hlaupin sín frábærlega og kann að afgreiða boltann í netið. Segjum að hann væri að spila með manni eins og Kevin DeBruyne þá mundi hann fá færi og skora.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×