Erlent

Aukin spenna vegna að­gerða Ísraelshers á Vestur­bakkanum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Aðgerðirnar hafa valdið umfangsmiklum skemmdum í Tulkarm.
Aðgerðirnar hafa valdið umfangsmiklum skemmdum í Tulkarm. Getty/Anadolu/Issam Rimawi

Ísraelsher segist hafa drepið fimm „hryðjuverkamenn“ sem voru „í felum“ á Vesturbakkanum. Aðgerðir Ísraelsmanna hafa meðal annars beinst gegn Tulkarm, þar sem herinn segir mennina hafa falið sig í mosku.

Meðal látnu var Muhhamad Jabber, leiðtogi hryðjuverkahóps í Nur Sham-flóttamannabúðunum í Tulkarm, að sögn hersins.

Aðgerðirnar á Vesturbakkanum hafa verið harðlega gagnrýndar og hefur António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kallað eftir því að þeim verð hætt.

Josep Borrell, framkvæmdastjóri utanríkismála hjá Evrópusambandinu, varar við úbreiðslu átaka frá Gasa og yfir á Vesturbakkann en stjórnvöld vestanhafs hafa látið nægja að kalla eftir því að Ísraelsher geri allt sem hægt er til að forða almennum borgurum frá skaða.

Aðgerðirnar standa enn yfir.Getty/Anadolu/Issam Rimawi

Mustafa Barghouti, formaður stjórnmálaflokksins Palestínska þjóðarátakið, sagði í samtali við BBC í morgun að hann óttaðist að aðgerðirnar fælu í sér alvarlega stigmögnun af hálfu Ísrael. Ljóst væri að átökin á Gasa hefðu nú teygt sig yfir á Vesturbakkann.

„Þeir eru að nota herafla til að ráðast á fólk sem sætir hernámi, sem er alvarlegt brot á alþjóðalögum,“ sagði Barghouti. 

Yfirvöld í Ísrael segja aðgerðirnar hins vegar „sjálfsvörn“ og að þær beinist gegn hryðjuverkamönnum.

Ayelet Shaked, fyrrverandi ráðherra, sagði í samtali við BBC að Ísraelsmenn hefðu haft veður af því að þar sem Hamas-liðar á Gasa stæðu nú völtum fæti hefðu þeir hvatt liðsmenn sína á Vesturbakkanum til að undirbúa hryðjuverkaárásir á Ísrael.

„Við erum að gera allt sem við getum til að verja okkur,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×