Að sama skapi getur það verið hreint út sagt helvíti að gera það ekki. Upplifa jafnvel kvíða og andvöku á sunnudagskvöldi, vitandi að það er enn ein vinnuvikan að hefjast.
Hjá sumum þverrar líka ánægjan. Verður að einhvers konar leiða. Sem á endanum breytist í hálfgerða óánægju eða tómleika þegar kemur að vinnunni.
Sem er algjör synd. Því vinnuvikan er jú drjúgur partur af lífinu okkar yfir vikuna.
En um þetta hefur auðvitað verið ritað og rætt í gegnum árin. Sem er ágætis áminning um það að vinnusambandið okkar þurfum við að hlúa að og rækta, rétt eins og við þurfum að hlúa að og rækta önnur jákvæð sambönd.
En hvernig gerum við það?
Í grein BBC Worklife er mælt með því að við séum dugleg að prófa okkur áfram og gera tilraunir, sé staðan orðin sú að við einfaldlega upplifum ekki sömu ánægju og áður eða gerum okkur grein fyrir því að til að ná til baka þessari tilfinningu að finnast gaman í vinnunni, þarf eitthvað rótttækt að gerast.
Sem oft snýst akkúrat ekkert um að skipta um vinnu, heldur aðeins að vinna í okkur sjálfum og endurvekja þær taugar og tilfinningar sem okkur langar til að upplifa í vinnunni okkar.
Í umræddri grein eru nokkur góð ráð veitt. Til dæmis að við rifjum það upp, hvers vegna við réðum okkur í þetta starf í upphafi og hvað það var þá, sem heillaði okkur hvað mest.
Annað sem bent er á, er að það að komast til baka í þá stöðu að finnast gaman í vinnunni er ekki eitthvað sem gerist hjá okkur á einni nóttu. Heldur ferill sem tekur okkur tíma að þróa okkur aftur í.
Þar geta litlu hænuskrefin hjálpað enda mælt með því að byrja að gera breytingar í litlum skrefum. Skrefin geta þá falist í einhverjum litlum breytingum sem þú gerir í vinnurútínunni þinni, í vinnuumhverfinu þínu eða jafnvel nesti og máltíðum, sem gera það að verkum að þú upplifir breytingarnar á einhvern ánægjulegan og jákvæðan hátt.
Næst er að huga að aðeins stærri breytingum. Og þá jafnvel þannig að þú farir aðeins út fyrir þægindarammann. Enda hverju hefur þú að tapa? Engu. Ef tilfinningin er nú þegar þannig að þér finnst þú hafa tapað ánægjunni í vinnunni, getur staðan varla versnað mikið.
Þessi stærri skref gætu falist í því að ræða hvernig þér líður við yfirmanninn þinn. Jafnvel að óska eftir einhverjum nýjum eða öðruvísi verkefnum. Í einhverjum tilfellum jafnvel tilfærslu innan vinnustaðarins.
Það sem leiðir okkur áfram í þessu ferli er að skoða það til hlítar hjá okkur sjálfum, hvers vegna okkur líður eins og okkur líður í vinnunni. Sérstaklega með tilliti til þess hversu ánægð við vorum eitt sinn.
Stundum getur þetta á endanum þýtt töluvert stórar breytingar. Jafnvel þannig að starfslýsingunni þinni verður alveg breytt og þú nánast í nýju starfi, þótt þú sért enn á sama vinnustað. Galdurinn felst í að finna hver okkar helsti hvati er.
Annað sem er nefnt sérstaklega er að skoða hvernig bestu dagarnir okkar líta út í vinnunni. Þar sem við erum ánægðust. Og vinna síðan markvisst að því að allir dagar séu okkar bestu dagar.
Aðalmálið er að gefast ekki upp á miðri leið heldur gera okkur grein fyrir því að góðir hlutir gerast hægt, en ekkert er óvinnandi vegur. Ekki einu sinni að finnast aftur gaman í vinnunni.