Fótbolti

Emilía Kiær markahæst með meira en mark í leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska landsliðskonan Emilía Kiær Ásgeirsdóttir var valin besta kona vallarins.
Íslenska landsliðskonan Emilía Kiær Ásgeirsdóttir var valin besta kona vallarins. @fcnordsjaelland

Íslenska landsliðskonan Emilía Kiær Ásgeirsdóttir var áfram á skotskónum í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær.

Emilía Kiær skoraði tvívegis í 3-2 sigri Nordsjælland á Bröndby og Nordsjælland valdi hana bestu konu vallarins eftir leikinn.

Nordsjælland er ríkjandi danskur meistari og Emilía varð markadrottning á síðustu leiktíð. Það hefur lítið breyst á toppnum á báðum vígstöðum. Eftir fjórar umferðir þá er Nordsjælland með fullt hús á toppi deildarinnar og Emilía markahæst með fimm mörk.

Emilía skoraði bæði mörkin sína á fyrstu átta mínútum leiksins og kom liði sínu því í 2-0 í upphafi leiks.

Nordsjælland og Bröndby og börðust um danska titilinn í fyrra en eftir þennan leik er Nordsjælland þegar búið að ná átta stiga forskoti á Bröndby. Í öðru sæti er Fortuna Hjörring sem hefur unnið alla þrjá leiki sína en á leik inni.

Mesta samkeppnin um markakóngstitilinn kemur kannski frá liðsfélaga hennar í Nordsjælland. Alma Aagaard skoraði eitt mark í gær og er með fjögur mörk eða einu minna en okkar kona.

Þær eru ekki gamlar. Alma aðeins átján ára og Emilía nítján ára. Saman hafa þær skorað níu af ellefu deildarmörkum liðsins á leiktíðinni.

Emilía hefur sjálf skorað fleiri mörk en sex af átta liðum dönsku deildarinnar og þar á meðal er Bröndby sem er aðeins með þrjú mörk í fyrstu fjórum leikjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×