Viðskipti innlent

Gjald­þrot olíuleitarfélags upp á 12 milljarða

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Gunnlaugur Jónsson hefur um nokkurt skeið freistað þess að finna olíu innan lögsögu Íslands. Hann einbeitir sér nú að tæknilausnum á samfélagsmiðlum.  
Gunnlaugur Jónsson hefur um nokkurt skeið freistað þess að finna olíu innan lögsögu Íslands. Hann einbeitir sér nú að tæknilausnum á samfélagsmiðlum.   Vísir/Egill Aðalsteinsson

Gjaldþrotaskiptum á búi eignahlutafélagsins Lindir Resources er lokið, án þess að nokkuð fengist upp í tólf milljörða króna lýstar kröfur. Félagið ætlaði sér á sínum tíma stóra hluti í olíuiðnaði. 

Greint er frá gjaldþrotinu í Lögbirtingablaðinu. Þar kemur fram að félagið, stofnað árið 2008, hafi verið í 78 prósent eigu Landsbankans og 22 prósent í eigu félags Gunnlaugs Jónssonar. Í svari Rúnars Pálmasonar upplýsingafulltrúa Landsbankans við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að félagið hafi á sínum tíma fjárfest í orkuiðnaði og náttúruauðlindum. 

„Bankinn eignaðist meirihluta í félaginu árið 2013 og að fullu árið 2015 í tengslum við skuldauppgjör eiganda félagsins. Í skuldauppgjörinu var miðað við virði trygginga og var félagið metið verðlaust í bókum bankans,“ segir í svarinu. Það hafi því engin áhrif á bankann. 

Í frétt Viðskiptablaðsins frá árinu 2010 kemur fram að félagið ætli að marka sér sess á sviði orkuiðnaðar og náttúrulegra auðlinda, „fyrst og fremst olíu til að byrja með“. Haft er eftir Gunnlaugi Jónssyni að félagið hafi í upphafi ítök í olíugeiranum víðs vegar um heiminn og bindi miklar vonir við olíuvinnslu í íslenskri lögsögu.

Fjárfesti félagið í olíuleitar– og vinnslufélögum sem staðsett voru í Noregi og Kanada, að því er fram kemur í umfjöllun DV.

Bankinn hafi rekið félagið áfram í rúman áratug og freistað þess að snúa rekstri þess við en allt hafi komið fyrir ekki. Samtímis gjaldþroti Linda resources var áðurnefnt eignarhaldsfélag Gunnlaugs, Flói ehf, úrskurðað gjaldþrota.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×