Innlent

Vill auka sýni­leika lög­reglu vegna stungu­á­rása

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson fordæmir árásina.
Bjarni Benediktsson fordæmir árásina. Vísir/Vilhelm

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, segir ríkisstjórnina harmi slegna yfir stunguárásinni á menningarnótt. Hann vill hraða fyrirhuguðum aðgerðum er miða að því að auka sýnileika lögreglu.

Sextán ára piltur var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 26. september á grundvelli almannahagsmuna vegna stunguárásarinnar í Skúlagötu á Menningarnótt. 

Pilturinn er grunaður um að hafa stungið þrjú ungmenni, tvær stúlkur og einn pilt með hnífi. Önnur stúlknanna er enn í lífshættu á sjúkrahúsi.

Málið var rætt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

„Við höfum haft vaxandi áhyggjur af þessu og erum harmi slegin yfir þessum síðustu atburðum. Samfélagið allt er í áfalli yfir því að við séum að upplifa árásir eins og þessa, ítrekað á undanförnum misserum,“ sagði Bjarni að loknum ríkisstjórnarfundi.

Samfélagið þurfi að rísa upp

„Við þessu verður einfaldlega að bregðast og við þurfum sem samfélag að rísa upp og grípa inn í. Þetta er þróun sem við viljum ekki sjá og viljum stöðva,“ sagði Bjarni og ítrekaði mikilvægi þess að tengja saman alla þá sem geta haft áhrif; lögreglu, skóla, heilbrigðiskerfið, félagsstarf í landinu og foreldra.

Mennta- og barnamálaráðherra kynnti í sumar aðgerðir gegn ofbeldi meðal barna þar sem merki væru uppi um að ákveðin ofbeldismenning væri að þróast meðal barna hér á landi.

Bjarni segir ríkisstjórnina nú ræða um að taka forgangsröðun hennar til endurskoðunar. Vilji standi til þess að auka sýnileika lögreglu. 

„Í aðgerðaráætlun okkar er gert ráð fyrir að auka sýnileika lögreglu og við erum að velta því fyrir okkur hvort við getum hraðað aðgerðum eins og þeirri vegna þess ástands sem hefur skapast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×