Innlent

Náðu líkams­á­rás á mynd­band

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þónokkuð var um slagsmál í miðborginni í nótt.
Þónokkuð var um slagsmál í miðborginni í nótt. Vísir/Vilhelm

Myndband náðist af hópi manna ráðast á einn á fimmta tímanum í nótt. Mennirnir flúðu vettvang en málið er nú í rannsókn. Mikið var um útköll tengd ölvun hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu eftir nóttina. Þrír ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og/eða áfengis. Einn er jafnframt grunaður um akstur án ökuréttinda og önnur umferðarbrot. Allir voru látnir lausir að lokinni sýnatöku.

Fram kemur í dagbókinni að mikið hafi verið um slagsmál niðri í miðbæ í nótt. Tilkynnt var um hópslagsmál til að mynda klukkan 3:45 auk líkamsárásarinnar sem talin er upp hér að ofan. Þá barst lögreglu tilkynning um ungan mann aka golfbíl um götur bæjarins en frekari upplýsingar um málið fylgja ekki. 

Rétt eftir miðnætti var lögregla kölluð út vegna einstaklings sem sat utan við krá og var að ónáða gesti og gangandi í kring um staðinn. Eftir að lögregla hafði gert tilraun til að vísa manninum brott eða bjóðast til að keyra hann annað án árangurs var ákveðið að hann yrði vistaður í fangageymslu sökum ástands. 

Þá var lögregla kölluð til vegna annars ofurölvi, sem var til ama fyrir utan skemmtistað. Maðurinn var fluttur á lögreglustöð til viðræðna og honumm gefið tækifæri að fara heim í bólið. Maðurinn fór hins vegar rakleiðis aftur á sama skemmtistað og lét ekki af hegðuinni. Hann var því handtekinn og vistaður í fangageymslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×