Skoðun

Al­þingi fyrir sér­hags­muni?

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson skrifar

Nú líður að nýju þingi í sögu lýðveldisins, en fá mál vöktu meiri athygli við þinglok síðastliðið vor en kaup Kaupfélags Skagfirðinga, KS, á öllu hlutafé í kjötiðnaðarfyrirtækinu Norðlenska á Akureyri.

Þetta var gert í krafti breytinga á búvörulögum þar sem samkeppnislögum var kippt úr sambandi, þau hreinlega lögð til hliðar. Megin rökin fyrir þeirri aðgerð voru að með þessu væri ætlunin að auðvelda aðilum í landbúnaði að sameinast og stuðla að hagræðingu.

En annað, kannski ekki yfirlýst markmið var að gera þeim sem eiga mikið, kleift að eignast meira, þeim stóru að verða stærri, í þessu tilfelli Kaupfélagi Skagfirðinga, sem er eitt stærsta kaupfélag landsins. Hver veit?

Í ársreikningi félagsins fyrir árið 2021, sem er sá nýjasti sem er opinber, og ber heitið „Kaupfélag Skagfirðinga – samstæða“ (e. Conglomerate), kemur fram að velta félagsins var árið 44 milljarðar og hreinn hagnaður félagsins var 8 milljarðar króna. Það er um þriðjungur þess fjár sem íslenskur landbúnaður fékk í styrki frá ríkinu á síðasta ári, sem var alls um 24 milljarðar króna.

Metro og ídýfur

Samkvæmt þeim ársreikning átti félagið þá alls 21 dótturfélag og er sú flóra æði fjölbreytt. Meðal annars á Kaupfélag Skagfirðinga skyndibitastaðinn Metro, vissir þú það lesandi góður?

Eigið fé félagsins var á þessum tímapunkti um 50 milljarðar króna og eignir þess tæpir 80 milljarðar. Það er því alveg ljóst að hér er ekki neinn „kettling“ að ræða, heldur risasamsteypa sem er með puttana í margvíslegri atvinnustarfsemi, allt frá fjárfestingastarfsemi, til innflutnings á korni, framleiðslu á sósum og ídýfum, og skyndibitamat.

Það eru því ákveðnar líkur á því að ídýfan með snakkinu þegar horft er á Júróvisjón, komi frá fyrirtæki í eigu KS.

En aftur að þessum sameiningargjörningi, sem olli mikilli umræðu, sérstaklega þegar kom í ljós að formaður atvinnuveganefndar, Þórarinn Ingi Pétursson, Framsóknarflokki, átti hlut í fyrirtækinu Búsæld, sem átti hlut í Kjarnafæði, sem svo KS keypti í skjóli nýrra búvörulaga. Hlutur Þórarins var að vísu lítill, en hlutur engu að síður og skekkti því stöðu hans í málinu.

Undir eðlilegum kringumstæðum hefði Samkeppniseftirlitið auðvitað átt að koma að þessu máli, en með þeim breytingum sem gerðar voru á búvörulögum, var einfaldlega búið að setja það ,,á bekkinn“ eins og sagt er. Það hafði því ekkert um málið að segja. Sem hljóta að teljast ótrúleg vinnubrögð, því Samkeppnisyfirlitið á meðal annars að gæta hagsmuna almennra neytenda.

Á vefsíðu þess segir orðrétt um tilgang samkeppnislaga: „Markmið samkeppnislaga er að efla virka samkeppni í viðskiptum. Samkeppniseftirlitinu ber að ná markmiðum samkeppnislaga með því að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri, vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum“ (feitletranir eru höfundar). Augljóst er að þessi gjörningur KS stuðlar að fákeppni og auðveldar ekki aðganga nýrra keppinauta að markaðnum. Hinn stóri verður því stærri. Hér er því beint unnið gegn tilgangi og anda samkeppnislaga.

„Alveg eins og á Norðurlöndunum“

Í umræðum um málið sagði núverandi fjármálaráðherra Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannesson, að nú væri búið að færa þessi mál í það horf sem væri á hinum Norðurlöndunum: „Aðalatriðið í þessu máli er það að sú löggjöf sem hér var sett er í samræmi við löggjöf annarra landa,“ sagði Sigurður Ingi. Efnislega hið sama sögðu einnig áðurnefndur Þórarinn, sem og núverandi matvælaráðherra, Bjarkey Olsen: „Þetta er tíðkað á Norðurlöndunum og við erum að fylgja í fótspor þeirra,“ sagði Bjarkey á RÚV. Þar með eru skilaboðin þau að „þetta eigi bara að vera svona.“

Þetta er hins vegar rangt og þessu mótmælti Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins í frétt á RÚV og tók dæmi frá Noregi.

Annað dæmi frá Svíþjóð verður nefnt hér, sem höfundur þessarar greinar aflaði sér upplýsinga um, m.a. fá sænskum samkeppnisyfirvöldum.

Í lok árs 2023 keypti landbúnaðarfyrirtækið „Lantmännen“ kjötvinnslufyrirtækið HKScan, sem þá var með um 1800 starfsmenn og um 8 milljarða sænskar krónur í veltu (sem er um 100 milljarðar ísk). Þetta fyrirtæki er í eigu 18.000 sænskra bænda og umsvifamikið í framleiðslu á búvörum.

Strax í þessu tilfelli var gerð krafa um að erindið færi til Samkeppnisstofnunar Svíþjóðar (Konkurrensverket), en það þurfti líka að fara fyrir framkvæmdastjórn ESB, þar sem Svíþjóð er í sambandinu. Hefur framkvæmdastjórnin forgang, þar sem fyrirtækin starfa og selja vörur í fleiri en einu ESB-ríki.

Í þessu tilfelli nægði að málið færi fyrir framkvæmdastjórn ESB, þar sem samanlögð velta fyrirtækjanna var undir 2.5 milljörðum evra. Samruninn var hins vegar tilkynntur til sænsku samkeppnisstofunnar, en umfjöllun ESB nægði.

Þá ber að taka fram að samruninn í Svíþjóð var einnig ,,mátaður“ við EES-samninginn, sem Ísland er aðili að, sérstaklega grein 57, sem fjallar um hindranir á markaði. Ekki er annað hægt að sjá en að kaup KS gegn grein 57 í samningunum, þar sem kaupin efla yfirburðastöðu KS á markaði. KS er eins og staðan er nú með um 67% af allri kinda og nautgripakjötsframleiðslu á landinu (Bændablaðið, 11. Júlí 2024). Þetta er verulega „góð“ markaðsstaða, svo ekki sé meira sagt.

Á vordögum 2024 fékk svo samruninn í Svíþjóð samþykki ESB, allt með það að markmiði að viðhalda heilbrigðum reglum á markaði og þar með að setja hag neytenda í forgang. Þetta kallast alvöru eftirlit og fagleg stjórnsýsla.

Er það því einfaldlega rangt sem haldið er að okkur í fjölmiðlum að „svona séu hlutirnir í nágrannalöndum okkar,“ þ.e.a.s. eins og þeir væru hér, að samkeppnislög væru bara lögð til hliðar þegar þess þyrfti.

Virðing fyrir samkeppni

Nágrannalönd okkar eru faglegri heldur en það, þar er borin virðing fyrir samkeppni og lögum. Hér er hins vegar almenningi boðið upp á að kippa lögum úr sambandi eftir hentugleika og að sniðganga stofnanir sem eiga að tryggja samkeppni og að eðlileg markaðslögmál í séu viðhöfð. Sérhagsmunir hafa hér því forgang. Skilaboðin í þessu eru að lög skipti í raun ekki máli og að þeim megi víkja til hliðar þegar ákveðnir hagsmunir krefjist þess. Það er eitthvað verulega bogið við það.

Gera má svo ráð fyrir því að í Danmörku og Finnlandi sé staðan eins og í Svíþjóð, meðal annars vegna þess að bæði löndin eru í ESB og þar gilda því sömu reglur.

Það er einfaldlega glórulaust að hægt sé að kippa samkeppnislögum úr sambandi vegna hagsmuna ákveðinna aðila. Þar með eru hagsmunir neytenda settir til hliðar og þá er það einnig líka ósanngjarnt gagnvart samkeppnisaðilum, skekkir samkeppnisstöðu þeirra. Kallast þetta ekki bara spilling? Og allt stimplað af Alþingi!

Í raun er það rannsóknarefni að mönnum þarna niður á Austurvelli hafi dottið þetta í hug, það mætti spyrja sem svo; hver fékk þessa hugmynd? Og allt undir ríkisstjórnarforystu flokks sem talar flokka mest um frjálsan markað, samkeppni og slíkt.

Margar „gloríur“

Alþingi hefur gert marga „gloríuna“ í gegnum tíðina, um þetta er meðal annars fjallað í nýlegri og merkilegri bók, „Um Alþingi“ eftir Dr. Hauk Arnþórsson, sem segir bæði að lagasetningu og vinnubrögðum þess hafi verið ábótavant í gegnum tíðina. Til að mynda kom kvótafrumvarpið á sínum tíma, 1983, nánast fullklárað frá LÍÚ (Landssambandi íslenskra útvegsmanna) á sínum tíma og var í raun bara „stimplað“ af þinginu. Önnur dæmi er stjórnlagaráð í kjölfar hrunsins 2008 og skipan dómara í Landsrétt á sínum tíma. Erlendar eftirlitsstofnanir hafa sett ofan í við Alþingi, vegna vinnubragða þess.

Umfjöllun Alþingis um þau lög sem leyfðu kaup KS hefur fengið mikla gagnrýni (í raun efni í aðra grein) því það frumvarp sem að lokum var samþykkt var eitthvað allt annað en kom fram í upphafi. Hér verður Alþingi heldur betur að taka sig á, en gerningar sem þessir kallast því miður að setja „ólög“ að mati þess sem skrifa. Vandamál í íslenskum landbúnaði ber ekki að leysa með þessum hætti.

Og því miður stendur spurningin eftir; eiga sérhagsmunir enn, árið 2024, beina og greiða leið inn á Alþingi?

Höfundur er stjórnmálafræðingur og almennur neytandi (m.a. lambakjöts).




Skoðun

Skoðun

Hvað má mangó kosta?

Hólmfríður Drífa Jónsdóttir,Hrönn G. Guðmundsdóttir,Ragnhildur Hólmgeirsdóttir skrifar

Skoðun

Staða barnafólks á Ís­landi

Steindór Örn Gunnarsson,Agla Arnars Katrínardóttir,Agnes Lóa Gunnarsdóttir,Árni Dagur Andrésson,Hildur Agla Ottadóttir,Kári Freyr Kane,Oddur Sigþór Hilmarsson skrifar

Sjá meira


×