Fótbolti

Stefán Ingi aftur á skotskónum fyrir Sandefjord

Smári Jökull Jónsson skrifar
Stefán Ingi skoraði mark Sandefjord í dag.
Stefán Ingi skoraði mark Sandefjord í dag. Facebooksíða Sandefjord

Stefán Ingi Sigurðarson skoraði sitt annað mark í norsku úrvalsdeildinni í dag þegar hann skoraði mark Sandefjord í 1-1 jafntefli gegn HamKam. 

Stefán Ingi gekk til liðs við Sandefjord í júlí og var að spila sinn fimmta leik í norsku úrvalsdeildinni. Hann hafði áður skorað gegn Strömgodset og bætti í sarpinn í dag þegar hann jafnaði metin fyrir Sandefjord með marki á 69. mínútu.

Lokatölur urðu 1-1 og mark Stefán tryggði Sandefjord mikilvægt stig í fallbaráttunni. Brynjar Ingi Bjarnason kom inn sem varamaður hjá HamKam á 38. mínútu í stöðunni 0-0 en Viðar Ari Jónsson sat allan tímann á varamannabekknum. Sandefjord er í þriðja neðsta sæti deildarinnar með 22 stig en HamKam í 8. sæti með 25  stig.

Annar Íslendingaslagur var þegar lið Kristiansund og Haugesund mættust. Bæði Anton Logi Lúðvíksson og Hilmir Mikaelsson byrjuðu á varamannabekk sinna liða en Hilmir kom inná í liði Kristiansund á 73. mínútu. Þá var staðan 2-1 heimamönnum í Kristiansund í vil en liðsmenn Haugesund náðu að jafna metin og tryggja 2-2 jafntefli. Eftir jafnteflið er Kristiansund í 12. sæti en Haugesund sæti neðar. 

Þá var Logi Tómasson á sínum stað í byrjunarliði Strömgodset sem tapaði 1-0 á heimavelli gegn Bodö/Glimt. Strömgodset er 11. sæti deildarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×