Tilkynning um að sex gíslar Hamas hefðu fundist látnir hefur vakið gríðarlega reiði í Ísrael. Þúsundir mótmæltu fyrir utan forsætisráðuneyti Benjamíns Netanjahús í dag.
Verkalýðsfélög hafa boðað til allsherjarverkfalls á morgun til stuðnings við fjölskyldur gíslanna og til að þrýsta á stjórnvöld um að semja um frelsi þeirra gísla sem eru enn í haldi Hamas. Á meðal þeirra sem hafa staðfest þátttöku er borgarstjóri Tel Aviv.
Netanjahú skellir skuldinni alfarið á Hamas sem neiti að semja.
„Á sama tíma myrtu þeir sex gísla frá okkur. Hver sá sem myrðir gísla vill ekki semja,“ sagði forsætisráðherrann í sjónvarpsávarpi.
Hamas segir sökina hins vegar liggja hjá Netanjahú sjálfum. Með því að fallast ekki á vopnahlé á Gasa beri stjórnvöld í Ísrael ábyrgð á örlögum gíslanna. Bandamenn forsætisráðherrans hafa hvatt hann til þess að semja um vopnahlé í dag.
Samtök fjölskyldna gíslanna sem Hamas tóku til fanga í árás sinni á Ísrael 7. október segja að gíslarnir sex sem fundust látnir hafi verið myrtir á allra síðustu dögum eftir að hafa lifað af ellefu mánuði af pyntingum, misnotkun og hungri í haldi Hamas.
Óljóst er hversu margir gíslar eru enn á Gasa, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Hamas-liðar tóku 251 mann í gíslingu og drápu 1.200 aðra 7. október. Gíslarnir gætu verið um hundrað en einhver fjöldi þeirra er talinn látinn.