Handbolti

Hefur lent á veggjum vegna kyns síns

Smári Jökull Jónsson og Valur Páll Eiríksson skrifa
Rakel Dögg Bragadóttir, þjálfari Fram.
Rakel Dögg Bragadóttir, þjálfari Fram. Vísir/Sigurjón

Rakel Dögg Bragadóttir verður ein þriggja kvenkyns aðalþjálfara í Olís-deild kvenna í handbolta í vetur. Hún fagnar fjölgun kvenna í stéttinni en segist hafa lent á veggjum vegna kyns síns.

Rakel Dögg var aðstoðarþjálfari Einars Jónssonar sem var aðalþjálfari Fram í fyrra en tók við stöðu hans í sumar. Það er verkefni sem hún er spennt fyrir.

„Ég tók auðvitað vel í það enda samþykkti ég það. Þetta er flottur klúbbur og hrikalega flottur hópur. Það er kannski aðallega það að hópurinn gerir það að verkum að maður hlakkar til að mæta á æfingar að þjálfa. Það var ekki erfið ákvörðun, þetta er mjög spennandi allt saman,“ sagði Rakel Dögg í samtali við Val Pál Eiríksson í Sportpakkanum.

Karlar hafa að stóru leyti mannað aðalþjálfarastöður í deildinni undanfarin. Því er gjarnan velt upp hvers vegna konur vilji síður sækja í þessi störf. Rakel segir þróunina þó vera á réttri leið.

„Það er mjög ánægjulegt að sjá það að það er að fjölga. Auðvitað er þetta ekki neitt öðruvísi, konur eru jafn færar að þjálfa. Það er einhvern veginn þessi menning, einhvers konar venja og við erum hægt og rólega að breyta því. Vonandi heldur þessi þróun áfram.“

Hefur þú lent á einhverjum veggjum í þessu starfi?

„Já já, að sjálfsögðu. Ég held að flestir geti talið eitthvað fram. Það er bara þannig og einhver partur af þessu. Einhvers staðar þurfum við að brjóta veggi og þurfum allar að gera það.“

„Það er einhvern veginn ekki eitthvað eitt sem maður getur bent á. Þetta er karllægt umhverfi og oft talað um að þetta sé ekki fjölskylduvænt. Karlmennirnir eiga líka fjölskyldur þannig að þetta er jafn ófjölskylduvænt fyrir þá. Við þurfum bara breytingar held ég í viðhorfi, bæði almennu viðhorfi til kvenþjálfara og líka hjá kvenmönnum í þessari stétt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×