Sport

Börnin höfðu ekki trú á Gauff en voru rekin í burtu

Sindri Sverrisson skrifar
Vonbrigðin leyndu sér ekki hjá Coco Gauff sem nær ekki að verja titil sinn á US Open.
Vonbrigðin leyndu sér ekki hjá Coco Gauff sem nær ekki að verja titil sinn á US Open. Getty/Luke Hales

Bandaríska tenniskonan Coco Gauff nær ekki að verja risatitil sinn á US Open í ár því hún féll í gær úr keppni eftir tap gegn löndu sinni, Emmu Navarro. Ungir krakkar settu svip sinn á lokakafla leiksins.

Gauff kom inn í mótið sem sú þriðja besta í heima en tapaði fyrir Navarro, sem er í 13. sæti, í fjórðu umferð mótsins. Navarro vann fyrsta settið 6-3 en Gauff jafnaði með 6-4 sigri.

Börn sem að fylgdust með leiknum virtust hins vegar ekki hafa mikla trú á Gauff í oddasettinu því í stöðunni 5-3 fyrir Navarro, þegar Gauff undirbjó uppgjöf, hópuðust börn saman neðst í stúkunni, með risatennisbolta, og gerðu sig klár í að fá eiginhandaráritun að leik loknum. Myndband af þessu má sjá hér að neðan.

Þetta hafði augljós áhrif á Gauff og öryggisverðir sáu á endanum til þess að börnin færu aftur í sín sæti. Gauff tók sér svo sinn tíma í að hefja leik að nýju en það breytti því þó ekki að börnin virtust hafa haft rétt fyrir sér, því Navarro vann settið 6-3 og þar með leikinn.

„Í lokin á leikjum þá er börnum leyft að koma með risavaxna tennisbolta til að fá eiginhandaráritun, til marks um að talið sé að leiknum sé alveg að ljúka,“ sagði Chris Fowler í sjónvarpsútsendingu.

„Coco sér þetta og hálfpartinn starir á þau til að snúa þeim við, og fer í burtu frá línunni. Þetta er ekki í lagi,“ sagði Fowler og félagi hans, Chris Evert, tók undir: „Verðirnir hefðu átt að koma í veg fyrir þetta.“

Tapaði í fyrstu umferð síðustu tvö ár í borginni sinni

Á meðan að fátt gekk upp hjá Gauff, sem alls nítján sinnum gaf Navarro stig með misheppnuðum uppgjöfum, þá var hin 23 ára Navarro í skýjunum eftir leik:

„Ég tapaði í fyrstu umferð síðustu tvö ár svo það er frekar klikkað að vera núna komin í átta manna úrslitin,“ sagði Navarro í New York í gær.

Emma Navarro er á heimavelli á US Open.Getty/Fatih Aktas

„Þetta er borgin sem ég fæddist í og manni finnst það alveg einstakt að spila hérna,“ sagði Navarro sem einnig vann Gauff í 16 manna úrslitum á Wimbledon-mótinu fyrir tveimur mánuðum. Hún sýndi andstæðingi sínum virðingu og sagði:

„Coco er stórkostlegur spilari. Ég ber endalausa virðingu fyrir henni og ég veit að hún á eftir að koma hingað aftur og vinna þetta mót að nýju.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×