Erlent

Eld­flaugum frá Norður-Kóreu skotið að Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Brak úr rússneskri eldflaug lenti á þessum skóla í Kænugarði í nótt.
Brak úr rússneskri eldflaug lenti á þessum skóla í Kænugarði í nótt. AP/Vasilisa Stepanenko

Rússar sendu í nótt fjölda dróna og eldflauga að skotmörkum í Úkraínu. Notast var við 35 stýri- og skotflaugar auk 26 Shahed-dróna, samkvæmt Úkraínumönnum, og segjast þeir hafa skotið niður níu skotflaugar, þrettán stýriflaugar og tuttugu dróna.

Brak úr eldflaugum sem hæfðar voru með loftvarnarkerfum féllu á Kænugarð og særðust þrír. Þar á meðal voru tvö leikskólabörn. Árásir voru einnig gerðar á Karkív, þar sem minnst þrettán borgarar eru látnir.

Ein eldflauganna sem skotið var á Karkív er sögð hafa hæft munaðarleysingjahæli. Nýtt skólaár hefst í Úkraínu í dag.

Dmitró Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði í dag að hluti eldflauganna sem skotið hefði verið að Úkraínu í nótt hefði komið frá Norður-Kóreu. Hann sagði alræðisstjórnir Rússlands og Norður-Kóreu ekki setja sér neinar takmarkanir á því hvaða skotmörk þær gætu skotið á en Úkraínumenn þyrftu að berjast með bundnar hendur vegna takmarkana sem bakhjarlar þeirra segja þeim.

Kallaði Kúleba eftir því að þessar takmarkanir yrðu felldar úr gildi svo Úkraínumenn gætu beitt vestrænum vopnum gegn hernaðarlegum skotmörkum innan Rússlands.

Áður hafa Úkraínumenn kallað eftir því að geta gert árásir á flugvelli þar sem flugvélar sem bera eldflaugar taka á loft og aðra staði þar sem eldflaugum og drónum er skotið að Úkraínu.

Ræddi við skólabörn um stríðið

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, sagði í morgun að sókn Úkraínumanna inn í Kúrskhérað í Rússlandi myndi ekki stöðva framsókn Rússa í austurhluta Úkraínu, þar sem hersveitir Rússa hafa sótt hraðar fram á undanförnum vikum.

Hann sagði einnig að sókn Úkraínumanna myndi misheppnast og að í kjölfarið myndu ráðamenn í Úkraínu falast eftir friðarviðræðum. Þetta sagði Pútín er hann ræddi við ung skólabörn í Kyzyl í Rússlandi í morgun.

Vladimír Pútín ræddi við skólabörn í austurhluta Rússlands í morgun.AP/Kristina Kormilitsyna

Það á sérstaklega við nærri borginni Pokrovsk í Dónetskhéraði. Rússar hafa um langt skeið sótt að borginni og hefur það gengið hægt. Sóknin hefur þó gengið hraðar á undanförnum vikum og hélt Pútín því fram að rússneskir hermenn væru hættir að sækja fram um tvö til þrjú hundruð metra í einu og væru þess í stað farnir að taka kílómetra á eftir kílómetra.

„Við höfum ekki náð svona sóknarhraða í Donbas um langt skeið,“ sagði Pútín við börnin, samkvæmt frétt Reuters.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×