Erlent

Bretar aftur­kalla sum leyfi fyrir vopnaútflutningi til Ísrael

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Utanríkisráðherrann David Lammy sagði ákvörðunina dapurlega en ítrekaði að ekki væri um að ræða allsherjarbann.
Utanríkisráðherrann David Lammy sagði ákvörðunina dapurlega en ítrekaði að ekki væri um að ræða allsherjarbann. epa/Andy Rain

Stjórnvöld á Bretlandseyjum hafa ákveðið að afturkalla heimildir til vopnaútflutnings til Ísrael, vegna hættunnar á því að vopnin verði notuð við brot á alþjóðalögum.

Samkvæmt breska utanríkisráðuneytinu var það niðurstaða tveggja mánaða innri rannsóknar að framganga Ísraelsmanna í átökunum á Gasa væri áhyggjuefni. Ákvörðun ráðuneytisins réðist ekki síst af framgöngu Ísrael gagnvart palstínskum föngum og neyðaraðstoð til handa íbúum Gasa.

Þeir sem stóðu að rannsókninni tóku ekki afstöðu til þess hvort vopnaútflutningur frá Bretlandi hefði leitt til eyðileggingar á Gasa en ljóst þótti að ástandið og mikið mannfall væri verulegt áhyggjuefni.

Hinar afturkölluðu heimildir ná til íhluta í herþotur, þyrlur og dróna, svo eitthvað sé nefnt. Um er að ræða 30 af 350 leyfum. Íhlutir í F-35 herþotur verða undanskildir, þar sem Bretar senda þá til Bandaríkjanna. Engar sendingar verða hins vegar leyfðar beint til Ísrael.

Ákvörðunin er talin munu sæta gagnrýni vestanhafs og þá hefur Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísrael, harmað hana en hann segir hana koma á tíma þar sem Ísraelsmenn séu að berjast á mörgum vígstöðum.

Utanríkisráðherrann Israel Katz segir ákvörðunina vonbrigði og óheppileg skilaboð til Hamas og Íran.

Hér má finna umfjöllun Guardian um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×